Ályktanir frá miðstjórn ASÍ

Miðstjórn ASÍ hélt fund fyrr í dag. Þar voru m.a. samþykktar eftirfarandi ályktanir; til stuðning Palestínu, um stýrivaxtahækkun Seðlabankans og um flugfélagið Play.

Ályktun miðstjórnar ASÍ um undirboð flugfélagsins Play
Flugfélagið Play ætlar að bjóða lægri flugfargjöld með því að greiða starfsfólki sínu lægri laun en þekkist á íslenskum vinnumarkaði. Grunnlaunin eru töluvert undir grunn atvinnuleysisbótum. Sá samningur sem Play hefur skilað til ríkissáttasemjara er óundirritaður og ekki ljóst hvernig hann er til kominn. Þó er ljóst að hann var gerður áður en hafist var handa við að ráða inn flugfreyjur og -þjóna og enn fremur er ljóst að Play fjármagnar stéttarfélagið (ÍFF) sem gerir þennan samning. Það er því með engu móti hægt að segja að Play fari eftir hefðum og reglum á íslenskum vinnumarkaði og með því að neita að gera kjarasamning við Flugfreyjufélag Íslands segir félagið sig úr samfélagi hins skipulagða vinnumarkaðar. Við það verður ekki unað og er félagið að boða til ófriðar og deilna um ófyrirsjáanlega framtíð ef ekki verður gengið til raunverulegra kjarasamningsviðræðna við félag sem sannanlega er skipulagt af þeim sem eiga að vinna samkvæmt kjarasamningnum.

Í samningi Play við ÍFF, sem óljóst er af hverjum er undirritaður, eru lægstu laun 266.500 krónur. Til samanburðar eru lægstu laun flugfreyja og -þjóna hjá Icelandair 307.000, atvinnuleysisbætur eru 307.430 krónur og lægsti taxti verkafólks er 331.735 krónur. Flugtímar innifaldir í grunnlaunum eru fleiri hjá Play en hjá Icelandair, greiddir yfirvinnutímar færri, greiðslur í lífeyrissjóð eru lægri, dagpeningar lægri og sömuleiðis bifreiðastyrkur og desemberuppbót svo eitthvað sé nefnt. Í samningnum er ekki kveðið á um framlög til starfsendurhæfingar, í orlofssjóð, starfsmenntasjóð eða sjúkrasjóð og ekki gert ráð fyrir launagreiðslum vegna veikinda barna.

Allar stoðir í kjaraumhverfi launafólks á Íslandi eru virtar að vettugi.

Alþýðusamband Íslands krefst þess að Play gangi til kjaraviðræðna við raunverulegt stéttarfélag flugfreyja og -þjóna á Íslandi – Flugfreyjufélag Íslands – og ætlast jafnframt til þess að Samtök atvinnulífsins, sem Play er hluti af, beiti sér fyrir raunverulegum kjarasamningi.

Alþýðusamband Íslands hvetur landsmenn til að sniðganga félagið þangað til það hefur sýnt að það ætli að vera hluti af íslenskum vinnumarkaði og bjóða starfsfólki sínu kaup og kjör sem gilda hér á landi.

Alþýðusamband Íslands hvetur lífeyrissjóði og aðra fjárfesta að sniðganga félagið sömuleiðis en félagið hefur reynt að gera sig gildandi gagnvart fjárfestum með því að stæra sig af óboðlegum launakjörum.

Alþýðusambandið telur vafa vera um lögmæti þess samnings sem Play vísar til sem kjarasamnings og mun beita þeim úrræðum sem tæk eru samkvæmt lögum nr. 80/1938 til þess að verja grunnréttindi launafólks á Íslandi og knýja á um kjarasamning.

 

Miðstjórn ASÍ mótmælir stýrivaxtahækkun Seðlabankans
Seðlabanki Íslands tilkynnti í morgun um 0,25 prósentu hækkun stýrivaxta og eru meginvextir bankans nú 1%. Þótt farið sé að rofa til í efnahagslífinu mælist atvinnuleysi enn yfir 10% og fjöldi heimila hefur orðið fyrir verulegu tekjufalli. Verðbólga hefur farið vaxandi en aukning verðbólgu skýrist að stærstum hluta af veikingu á gengi krónunnar, hækkun á hrávöruverði og mikilli hækkun húsnæðisverðs. Enn eru miklar takmarkanir á atvinnumöguleikum atvinnulausra og fjölmörg fyrirtæki glíma við rekstrarerfiðleika vegna sóttvarnarráðstafana. Miðstjórn ASÍ mótmælir hækkun vaxta í slíku efnahagsástandi og telur það geta haft neikvæð áhrif á hag heimila og fyrirtækja og hægt á bata á vinnumarkaði og þar með í samfélaginu öllu. ASÍ hefur ítrekað bent á að mikilvægi þess að sýna þolinmæði og þrautseigju á meðan tekist er á við heimsfaraldurinn og efnahagslegar afleiðingar hans. Í miðjum storminum er mikilvægast að tryggja afkomu fólks og efnahagslega virkni. Hækkun stýrivaxta getur gengið gegn því markmiði og getur enn fremur ýtt undir verðbólgu fremur en að draga úr henni.

Vaxtahækkun er ekki eina leiðin til að takast á við vaxandi verðbólgu, ekki síst í ljósi þess hversu stórt hlutverk hækkun á húsnæðiverði gæti leikið. Minnt er á að Seðlabankinn hefur önnur tæki til að grípa inn á húsnæðismarkaði og hefur ekki fullnýtt þær heimildir. Seðlabankinn og stjórnvöld geta jafnframt gripið til margvíslegra aðgerða til að draga úr þrýstingi á verðbólgu fremur en úreltra aðferða sem geta verið skaðlegri til lengri tíma litið. Þá þarf að skoða aðgerðir til að draga úr spákaupmennsku og gróðabraski á húsnæðismarkaði, til dæmis með strangari lánaskilyrðum gagnvart kaupendum sem eiga fleiri en eina eign.

Miðstjórn ASÍ áréttar einnig að nú verður horft til viðbragða banka og fjármálastofnanna sem hafa ratað í fréttir að undanförnu vegna milljarða hagnaðar. Miðstjórn hefur áður gagnrýnt hækkun vaxtaálags samhliða vaxtalækkun þar sem bankarnir tóku til sín hluta af vaxtalækkun Seðlabankans.

 

Ályktun miðstjórnar ASÍ til stuðnings Palestínu
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands krefst þess að íslensk stjórnvöld bregðist af fullum þunga við linnulausum árásum Ísraelshers á Palestínu. Miðstjórn tekur undir með félaginu Ísland-Palestína og fer fram á að íslensk stjórnvöld beiti hnitmiðuðum viðskiptaþvingunum gegn Ísrael þar til árásir á Palestínu hafa verið stöðvaðar og þjóðernishreinsunum hætt.

Íslensk stjórnvöld hafa viðurkennt sjálfstæði Palestínu og aðgerðir verða að fylgja slíkri viðurkenningu. Miðstjórn ASÍ lýsir yfir fullum stuðningi við sjálfstæði Palestínu og telur að viðskiptaþvinganir eigi að vera í gildi þar til hernámi er lokið og tilvist Palestínu að fullu viðurkennd.