Á fundi miðstjórnar ASÍ í vikunni var þess krafist að atvinnurekendur axli ábyrgð og haldi aftur af verðhækkunum. Jafnframt var mótmælt ákvörðun Alþingis um skerðingu á kjörum aldraðra, öryrkja og atvinnuleitenda. Tvær ályktanir miðstjórnar má lesa hér fyrir neðan
Verðbólgan er versti óvinur launafólks
Miðstjórn ASÍ krefst þess að atvinnurekendur axli ábyrgð og haldi aftur af verðhækkunum. Geri þeir það ekki er einsýnt að
framundan eru tímar óstöðugleika og átaka.
Miðstjórn ASÍ varar við þeim efnahagslega óstöðugleika sem hér ríkir. Gengi krónunnar hefur ekki verið lægra í tvö ár, verðbólgan mælist nú 4,2% og verðbólguhorfur eru óásættanlegar. Ástæður mikillar verðbólgu eru margar en hækkuð álagning í verslun og þjónustu, auknar álögur opinberra aðila og veikt gengi krónunnar skýra hana að mestu.
Verðbólgan er versti óvinur launafólks. Hún rýrir kjörin, hækkar vexti og eykur skuldir heimilanna. Samkvæmt gildandi kjarasamningum eiga laun almennt að hækka um 3,25% í byrjun febrúar. Helsta markmið kjarasamninganna var að auka kaupmátt alls launafólks. Það markmið er því miður ekki að nást.
Við þessa stöðu verður ekki unað. Það er ekki hægt að kasta öllum vanda og allri ábyrgð á launafólk. Miðstjórn ASÍ krefst þess að stjórnvöld og atvinnulífið komi fram af ábyrgð í þeirri erfiðu stöðu sem blasir við vegna endurskoðunar kjarasamninga. Ábyrgð atvinnurekenda er mikil en jafnframt verða stjórnvöld að standa við gefin fyrirheit, endurskoða stefnuna í gengis- og peningamálum og leggja þannig grunn að stöðugleika.
Vegið að þeim sem síst skyldi
Miðstjórn ASÍ mótmælir ákvörðun Alþingis um skerðingu á kjörum aldraðra, öryrkja og atvinnuleitenda. Þegar
gengið var frá kjarasamningum 2011 ætlaði ríkisvaldið að hækka bætur til samræmis við hækkun lægstu launa eða um 11.000
á árunum 2012 og 2013. Ekki var staðið við það. Þess í stað hækkuðu bætur einungis um 5.600 kr. til 6.500 hvort árið.
Frá árinu 2010 vantar alls 16-17.000 kr. á mánuði upp á að bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur hækki í samræmi
við hækkun lægstu launa í kjarasamningum. Þetta jafngildir tekjutapi þessara einstaklinga upp á tæplega 200 þúsund kr. árið
2013. Þessi niðurstaða er með öllu óásættanleg.