Ályktun um keðjuábyrgð og hrakvinnu
Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands haldinn í Grindavík dagana 2. og 3. júní 2016 fagnar breytingum Reykjavíkurborgar á útboðsskilmálum og verksamningum borgarinnar þar sem keðjuábyrgð yfirverktaka gagnvart undirverktökum er staðfest. Fundurinn hvetur önnur sveitarfélög, opinber fyrirtæki og opinberar stofnanir til að fara að fordæmi Reykjavíkurborgar og eins löggjafann til að innleiða keðjuábyrgð í lög.
Vinnumarkaðurinn á Íslandi er í örum vexti og mikil hætta á að hrakvinna ýmis konar þrífist við slíkar aðstæður. Aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands hafa stóreflt vinnustaðaeftirlit á sínum vegum og því ber einnig að fagna að aðrar eftirlitsstofnanir hafa gert slíkt hið sama: Ríkisskattstjóri, Vinnueftirlitið, Vinnumálastofnun og lögreglan. Samstarf á milli stofnana og verkalýðshreyfingarinnar hefur borið sýnilegan árangur. Betur má þó ef duga skal og kallar formannafundur eftir áhuga Samtaka atvinnulífsins og átaki stjórnvalda til að stemma stigu við hrakvinnu. Í því þarf að felast nægjanlegt fjármagn til viðeigandi eftirlitsstofnana, lagabreytingar varðandi keðjuábyrgð, skýr lög varðandi vistráðningar (AU-pair), uppræting ólöglegrar sjálfboðastarfsemi, stórefling úrræða vegna mansalsmála og bætt upplýsingamiðlun til erlends starfsfólks um réttindi sín og skyldur.
Ályktun um ungt fólk innan SGS
Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands haldinn í Grindavík dagana 2. og 3. júní 2016 fagnar þátttöku ungs fólks af öllu landinu í starfi hreyfingarinnar. Raddir þeirra fulltrúa sem sátu ungliðafund SGS í Grindavík í byrjun júní eru mikilvægar og nauðsynlegt að gera enn betur til að virkja ungt fólk til starfa til að tryggja endurnýjun og fræða ungt fólk um réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Starfsgreinasambandið mun búa til vettvang árlega fyrir ungt fólk innan hreyfingarinnar til að hittast og vinna að því að bæta stöðu ungs fólks á vinnumarkaði.
Ályktun um samningsrétt
Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands haldinn í Grindavík dagana 2. og 3. júní vill taka það skýrt fram að SGS mun ekki verða aðili að nýju vinnumarkaðsmódeli sem nú er unnið að, ef það leiðir til þess að frjáls samningsréttur stéttarfélaganna verður skertur eða takmarkaður á nokkurn hátt.
Formannafundurinn vill einnig taka það sérstaklega fram að ef það kemur til þess að breyta þurfi lögum um stéttarfélög og vinnudeilur vegna nýs vinnumarkaðsmódels þá verði það tryggt að slíkar breytingar leiði alls ekki til skerðingar eða takmörkunar á frjálsum samningsrétti stéttarfélaganna.
Formannafundur SGS er sannfærður um að forræði hvers stéttarfélags til kjarasamningsgerðar og frjáls samningsréttur sé hornsteinn stéttarfélagsbaráttu á Íslandi og það frjálsræði og þann samningsrétt megi ekki skerða eða takmarka á nokkurn hátt.