Alþýðufyrirlestur til styrktar Mæðrastyrksnefnd

Fyrirlesturinn verður í Samkomuhúsinu
Fyrirlesturinn verður í Samkomuhúsinu

AkureyrarAkademían og Leikfélag Akureyrar hafa ákveðið að endurvekja styrktarsamkomur sem haldnar voru í Samkomuhúsinu í byrjun 20. aldar. Þá var reglulega boðið upp á alþýðufyrirlestra til styrktar ýmsum góðum málefnum. Akademónar og LA tóku höndum saman á haustdögum og hafa staðið saman að fyrirlestrum. Í þetta sinn hefur fleirum verið boðið að taka þátt. Afráðið var að bjóða upp á alþýðufyrirlestur til styrktar Mæðrastyrksnefnd Akureyrar, fimmtudaginn 6. desember kl. 20.00 í Samkomuhúsinu. Margrét Guðmundsdóttir sagnfræðingur heldur fyrirlestur sem hún nefnir: Upprisa þeirra nafnlausu. Leikararnir Aðalbjörg Þóra Árnadóttir, Einar Aðalsteinsson , Hannes Óli Ágústsson munu aðstoða við flutninginn. Minjasafnið á Akureyri hefur tekið að sér að sjá um leikmynd. Allur ágóði af fyrirlestrinum mun renna óskiptur til Mæðrastyrksnefndar. Forsala aðgöngumiða er hjá Leikfélagi Akureyrar en miðinn kostar aðeins kr. 2.000.

Í fyrirlestrinum verður kastljósinu beint að lífi alþýðukvenna á Íslandi í upphafi 20. aldar. Samkomugestum verður boðið á fund með siðavöndum verkamönnum í Reykjavík og á lokaða fund fyrir byrgðum gluggum á ónafngreindum stað. Drepið verður á tilraun til að koma fótum undir uppljóstrara á Akureyri og í Glæsibæjarhreppi. Fjallað verður um einstæðar mæður, húsmæður, verkakonur– giftar og ógiftar, saumakonur, leikkonur, félagsmálafrömuði en fyrst og fremst um síldarstúlkur. Gestum verður boðið frá Reykjavík til Akureyrar – með togara – við lofum að engin verður sjóveikur á því ferðalagi. Þeir fá aukinheldur að gaumgæfa farangur hjá einum farþeganum. Litið verður inn um gættina á verbúðum síldarstúlkna á Hjalteyri og brugðið upp mynd af aðbúnaði þeirra og sambúð. Kostur verkakvenna og vinnufatnaður verður gaumgæfur og drepið á þvotta og þrifnað.Áhugasömum hlustendum verður að sjálfsögðu boðið að slást í för með verkakonum á söltunarplanið.