Þing Norrænna samtaka starfsfólks í hótel- veitinga og ferðaþjónustugreinum fer nú fram í Malmö í Svíþjóð. Starfsgreinasamband Íslands á fjóra fulltrúa á þinginu, m.a. Björn Snæbjörnsson formann SGS og Einingar-Iðju.
Á veg SGS segir að í upphafi fundar ávarpaði Ron Oswald þingið, en hann er framkvæmdastjóri alþjóðasamtakanna IUF (samtök stéttarfélaga starfsfólks í ferðaþjónustu, landbúnaði og matvælaframleiðslu). Áskoranirnar eru margar og tók hann dæmi um hótelkeðjur víðs vegar um heiminn sem arðræna starfsfólk. Verð á hótelherbergjum er svipað hvar sem er í heiminum en kjör hótelþerna eru mjög misjöfn. Tekist hefur að fá starfsfólk innan hótelkeðja í New York til að ganga til liðs við stéttarfélög og þar hefur baráttan skilað árangri. Sama verður ekki sagt um starfsfólk í Bretlandi og sums staðar í Asíu fá hótelþernur 2-3 bandaríkjadali á dag fyrir erfiða vinnu á hótelkeðjum sem við þekkjum öll.
Ron Oswald sagðist vera mjög hrifinn af starfi Norrænu samtakanna í baráttunni gegn kynferðislegri áreitni innan ferðaþjónustunnar og þar gæti restin af heiminum lært mikið. Þar þyrfti að kalla stóru hótelkeðjurnar til ábyrgðar. Til dæmis væri búið að sanna að aðgengi að sjónvarpsstöðvum með klámefni eykur áreitni gagnvart starfsfólki.
Ron benti á að baráttan gegn AirBNB-væðingunni væri stöðugt viðfangsefni en þar væri ekki um raunverulegt deilihagkerfi að ræða heldur lyti það engum reglum og tæki störf frá fólki innan greinarinnar og yki svarta atvinnustarfsemi. Hann tók að lokum dæmi um alþjóðlega baráttu sem hefði borið árangur, til dæmis af starfsfólki skyndibitakeðja í Bandaríkjunum sem kröfðust lágmarkslauna – með stuðningi alþjóðasamtaka verkafólks náðist það fram. Sömuleiðis eru núlltímasamningar nú bannaðir á Nýja Sjálandi (samningar þar sem ekkert starfshlutfall er tilgreint), en það er árangur baráttu stéttarfélaganna.
Samstaða verkafólks yfir landamæri er mikilvægari en nokkurn tímann þar sem hagkerfið er alþjóðlegt.