Niðurstöður úttektar verðlagseftirlits ASÍ á leikskólagjöldum sveitarfélaganna sýna gjaldskrárhækkun í sjö sveitarfélögum af sextán miðað við janúar 2017, í þremur sveitarfélögum hefur gjaldið lækkað en er óbreytt í sex. Lægst eru leikskólagjöldin í Reykjavík.
Sextán fjölmennustu sveitarfélögin voru í úrtakinu. Mikill verðmunur er á hæstu og lægstu leikskólagjöldunum (almennu gjaldi) eða 52% sem gerir 13.231 kr. á mánuði eða ríflega 145.500 krónur á ári. Lægstu almennu leikskólagjöldin (miðað við 8 tíma með fæði) eru í Reykjavík á 25.234 kr. á mánuði á meðan hæstu leikskólagjöldin eru í Garðabæ á 38.465 kr. Leikskólagjöld fyrir forgangshópa eru einnig lægst í Reykjavík eða 16.770 á mánuði (8 tímar með fæði) en hæst hjá Sveitarfélaginu Skagafirði, 29.512 kr. en þau hækkuðu um 1,5% um áramótin. Mikill munur er því á lægstu og hæstu leikskólagjöldunum fyrir forgangshópa eða 12.842 kr. á mánuði sem jafngildir 141.262 kr. á ári.
Breytingar á leikskólagjöldum 2017-2018 - TAFLA
Gjöldin lægst í Reykjavík en hæst í Garðabæ
Kópavogur, Akureyri, Árborg, Akranes, Seltjarnarnes, Sveitarfélagið Skagafjörður og Ísafjarðarbær hækkuðu leikskólagjöld sín þannig að 8 tímar með fæði eru dýrari í janúar 2018 en í janúar 2017. Mesta hlutfallslega hækkunin á almennu gjaldi, 8 tímum með fæði, er hjá Sveitarfélaginu Árborg eða 2,9% eða sem nemur 1.025 kr. á mánuði, næstmest hækka almenn gjöld í Kópavogi eða um 2,7% (821 kr. á mánuði ) og sömu sögu er að segja um Ísafjarðabæ en þar hækka gjöldin einnig um 2,7% (954 kr. á mánuði).
Vestmanneyjar, Reykjavík og Mosfellsbær hafa hinsvegar lækkað leikskólagjöld síðan í fyrra. Mestu hlutfallslegu lækkunina má finna í Vestmanneyjum en þar lækka almenn leikskólagjöld (8 tímar m. fæði) um 10,2% og fara úr 39.578 kr. í 35.550 kr. Lækkunin nemur því 4.028 kr. á mánuði eða 44.308 kr. á ári. Það ber þó að hafa í huga að leikskólagjöldin voru hæst af öllum stöðum í Vestmannaeyjum í fyrra. Næst mesta lækkunin er í Reykjavík eða 8,1% (2.213 kr. lækkun á mánuði) en í Mosfellsbæ lækka gjöldin um 3,7% (1.264 kr. á mánuði).
Niðurstaðan er því sú að Reykjavík er með lægstu almennu leikskólagjöldin miðað við 8 tíma með fæði, 25.234. kr. en Garðabær með þau hæstu, 38.465 kr. Það munar 13.231 kr. á mánuði eða 145.541 kr. á ári.
Kópavogur hækkar gjöld á forgangshópa um 6,2%
Niðurstöðurnar eru aðrar ef horft er til forgangshópa sem víðast eru einstæðir foreldrar, námsmenn og öryrkjar. Hlutfallsleg hækkun á leikskólagjöldum (8 tímar m. fæði) hjá forgangshópum var til að mynda mest í Kópavogi þetta árið eða 6,2% sem gerir 1.437 kr. á mánuði. Þar á eftir kemur Akureyri með hækkun upp á 3,2% (850 kr. á mánuði) og Sveitarfélagið Árborg með 2,9% hækkun. Mesta lækkunin á leikskólagjöldum fyrir forgangshópa er í Vestmanneyjum eða 9% (2.756 kr. á mánuði). Þar á eftir kemur Reykjavík með 4,3% lækkun og loks Mosfellsbær með 3,2% lækkun. Sum sveitarfélög hækkuðu fæðisgjald um áramótin en afsláttur hjá forgangshópum nær yfirleitt ekki til fæðis. Hafa ber í huga að í þeim tilfellum hækkar heildarverð á leikskólagjöldum hjá forgangshópum hlutfallslega meira en hjá þeim sem borga almennt gjald. Eins og sjá má á línuritinu eru leikskólagjöld fyrir forgangshópa árið 2018 hæst í Sveitarfélaginu Skagafirði 29.512 kr. en lægst í Reykjavík á 16.770 kr. Það gerir 12.742 kr. mun á mánuði eða 140.162 kr. á ári.
372% munur á 9. tímanum milli sveitarfélaga
Gjald fyrir á 8 tíma vistun með fæði gefur ágæta mynd af leikskólagjöldum en segir þó ekki alla söguna. Fyrir þá sem þurfa lengri vistun getur 9. tíminn í dagvistun verið dýr og hækkað heildargjaldið mikið. Mikill munur er á þessari auka klukkustund hjá sveitarfélögunum, dýrust er hún í Kópavog, 14.066 kr. en ódýrust hjá Sveitarfélaginu Skagafirði, 2.977 kr. en munurinn er 372%. Hjá foreldrum sem þurfa að hafa barnið sitt í gæslu í 9 klukkutíma í stað 8 hækka leikskólagjöldin því mikið. Í Kópavogi borga foreldrar 31.424 kr. fyrir 8 tíma vistun með fæði en 45.490 fyrir 9 tíma með fæði og hækka leikskólagjöldin því um 44% í þessu tilfelli ef bæta þarf einni klukkustund við daginn. Reykjavík er með næstdýrasta 9. tímann á 10.003 kr. og þar á efir koma Fljótsdalshérað og Vestmanneyjar.
Verðin eru önnur ef horft er til forgangshópa. 9. tímann er dýrastur fyrir forgangshópa í Kópavogi, 9.843, Fljótsdalshérað kemur þar á eftir með 9.548 kr. á tímann, Vestmanneyjar með 5.810 kr. á tímann og loks Akureyri með 4.716 kr. á tímann. Ódýrasti 9. tíminn fyrir forgangshópa er á Seltjarnarnesi, 2.021 kr. þar á eftir kemur Ísafjarðarbær með 2.029 kr. og loks Borgarbyggð með þriðja ódýrasta 9. tímann á 2.055 kr.
Systkinaafsláttur er mjög misjafn milli sveitarfélaga, frá 25-75% fyrir annað barn og 50-100% afsláttur fyrir þriðja barn. Almenna reglan er að afsláttur sé veittur af leikskólagjöldum en ekki af fæði.
Verðlagseftirlitið kannaði breytingar á gjaldskrám fyrir vistun og fæði í leikskólum hjá 16 stærstu sveitarfélögum landsins frá 1. janúar 2017 til 1. janúar 2018.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.