Verðlagseftirlit ASÍ hefur kannað þær breytingar sem orðið hafa á álagningu fasteignagjalda og útsvars milli áranna 2020 og 2021 í 16 fjölmennustu sveitarfélögum landsins. Fasteignagjöld eru stærsti tekjuliður sveitarfélaga á ári á eftir útsvari.
Álagningarhlutföll fasteignagjalda standa í stað milli ára í flestum sveitarfélögum en fasteigna- og lóðamat hækkar á mörgum stöðum og því hækka fasteignagjöld í mörgum tilfellum. Sum sveitarfélög brugðust þó við miklum hækkunum á fasteigna- og lóðamati og lækkuðu álagningarhlutföll. Sorphirðugjöld hækkuðu í 13 sveitarfélögum og í sumum tilfellum um tugi prósenta en mest hækkuðu gjöldin í Mosfellsbæ, 38%. Mest hækka samanlögð fasteignagjöld í fjölbýli í krónum talið á Ísafirði, eldri byggð en töluverðar hækkanir voru einnig í Mosfellsbæ, Borgarnesi og á Egilstöðum. Í sérbýli hækkuðu samanlögð fasteignagjöld mest á Sauðárkróki en fasteigna- og lóðamat hækkaði þar einnig mikið. Mest lækkuðu fasteignagjöld í fjölbýli í Njarðvík, Reykjanesbæ en töluverðar lækkanir má einnig sjá á Reyðarfirði, Fjarðarbyggð. Litlar lækkanir voru á fasteignagjöldum í sérbýli. Útsvarsprósentur sveitarfélaganna stóðu í stað í öllum 16 sveitarfélögunum milli ára.
Fylgstu með Verðlagseftirliti ASÍ á Facebook. Vertu á verði – Facebook-hópur. Taktu þátt í eftirliti með verðlagi.