Vert er að benda félagsmönnum sem eiga leið í höfuðborgina á næstunni frá tveimur áhugaverðum sýningum sem settar eru upp í tilefni af 100 ára afmæli ASÍ. Önnur sem ber heitið „Vinnandi fólk“ er í Þjóðminjasafni Íslands en hin sem ber yfirskriftina „Gersemar úr safneign Listasafns ASÍ“ er í Listasafni ASÍ sem er á Freyjugötu.
Vinnandi fólk
- Ljósmyndasýning í tilefni af 100 ára afmæli Alþýðusambands Íslands
- Þjóðminjasafn Íslands 5. mars - 22. maí 2016
- Birtu er brugðið á það hvernig aðstaða og aðbúnaður vinnandi fólks á Íslandi hefur breyst frá stofnun ASÍ. Sýningin er vitnisburður um framþróun hjá vinnandi fólki á mörgum sviðum á síðustu hundrað árum. Máttur ljósmyndarinnar sem miðlunartækis er magnaður, hún sýnir okkur veruleikann eins og hann var svart á hvítu.
- Sýningarhöfundur: Sumarliði R. Ísleifsson
- Sýningarstjóri: Sigurlaug Jóna Hannesdóttir
Gersemar úr safneign Listasafns ASÍ
- Myndlistarsýning í tilefni af 100 ára afmæli Alþýðusambands Íslands
- Listasafn ASÍ 5. mars – 3. apríl 2016. Safnið er opið alla daga milli kl. 13 og 17 nema mánudaga
- Í stórfenglegri listaverkagjöf Ragnars Jónssonar í Smára til Alþýðusambands Íslands, sem varð kveikjan að stofnun Listasafn ASÍ 1961, eru mörg af þekktustu myndverkum tuttugustu aldar eftir nokkra fremstu listamenn þjóðarinnar: Ásgrím Jónsson, Jón Stefánsson, Jóhannes Sveinsson Kjarval og Svavar Guðnason. Á sýningunni: GERSEMAR úr safneign Listasafns ASÍ verða verk eftir ofangreinda listamenn sýnd í bland við aðrar og minna þekktar perlur úr safneigninni sem kallast á við verk gömlu meistaranna á margbreytilegan hátt.
- Sýningarstjórar: Kristín G. Guðnadóttir og Steinunn G. Helgadóttir