Á heimasíðu ASÍ segir að í nýlegri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um opinber fjármál eru áskoranir í ríkisfjármálum á komandi árum til umfjöllunar. Skýrslan var til umfjöllunar í mánaðaryfirliti stefnumótunar og greiningar sem kom út í síðustu viku. Sjóðurinn áætlar að opinberar skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu (svokallað skuldahlutfall) aukist um 17,8 prósentustig í vestrænum ríkjum vegna kórónuveirunnar. Skuldir hækkuðu mest í Bandaríkjunum, Spáni, Bretlandi og Kanada. Á Íslandi var hækkunin minni en hjá flestum öðrum þjóðum. Áætlar sjóðurinn að skuldir ríkissjóðs hækki um 9,7 prósentustig vegna heimsfaraldurs. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur ekki beinar tillögur um hvert umfang opinberra skulda ættu að vera. Lækkun á vöxtum hefur hins vegar leitt til þess að vaxtabyrði hefur staðið í stað sem gerir það að verkum að þjóðir þola hærri skuldir en ella. Í skýrslunni kemur fram að skuldaviðmið hafi þar með lækkað síðustu ár og að skuldaviðmið sem stuðst var við fyrir heimsfaraldur kunni að vera of takmarkandi.