Ágreiningur um slysatryggingu

Eftirfarandi grein skrifuðu lögfræðingar félagsins sem starfa hjá Pacta á Akureyri:

Slys geta hent alla, hvort sem er í frítíma eða á vinnustað. Ef launþegi verður fyrir slysi við störf er hann slysatryggður samkvæmt IV. kafla laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Til þess að aðili eigi rétt á bótum úr slysatryggingum almannatrygginga vegna vinnuslyss þarf atvikið sem veldur skaða að vera skilgreint sem slys samkvæmt almannatryggingalögum, en má til dæmis ekki vera rakið til undirliggjandi sjúkdóms hjá viðkomandi. Slys er skilgreint í 27. gr. laganna sem skyndilegur, utanaðkomandi atburður sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er samkvæmt lögunum og gerist án vilja hans.

Þann 10. apríl 2011 varð dyravörður, sem er félagsmaður í Einingu-Iðju, fyrir vinnuslysi við störf sín á skemmtistað. Slysið varð með þeim hætti að hann var á leið með glös inn í eldhús þegar hann rakst utan í einn gesta staðarins sem brást ókvæða við og réðst að dyraverðinum. Þeir tókust á og dyravörðurinn freistaði þess að ná tökum á gestinum líkt og hann er þjálfaður til að gera í aðstæðum sem þessum, en hann starfaði á staðnum samkvæmt leyfi og hafði lokið námskeiðum sem haldin eru af sýslumanni og stéttarfélaginu Einingu-Iðju. Við átökin hlaut hann áverka á hendi. Dyravörðurinn þurfti að fara í aðgerð vegna áverkans og varð óvinnufær fyrir vikið.

Málið var sent lögmönnum Einingar-Iðju til meðferðar, sem sendu umsókn til Sjúkratrygginga Íslands um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga vegna vinnuslyss, samkvæmt almannatryggingalögum. Málið var tekið fyrir og í ákvörðun SÍ frá 1. júlí 2011 segir að tilefnislaus líkamsárás falli ekki undir það sem starfsmaður á veitingastað geti átt von á sem hluta af starfi sínu og atvikin standi ekki í tengslum við vinnu mannsins sem dyravarðar, þar sem það felist ekki í starfinu að standa í beinum átökum við gesti staðarins. Einnig segir að atvikið falli ekki undir slys, þar sem það falli undir líkamsárás sem sé refsiverður verknaður og eigi undir almenn hegningarlög. Umsókninni um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga var því hafnað af Sjúkratryggingum Íslands.

Lögmaður Einingar-Iðju kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar almannatrygginga þann 8. ágúst 2011. Í kærunni var því mótmælt að dyravörðurinn hafi á einhvern hátt átt þátt í því að til átaka kom og hann hafi að öllu leyti sinnt starfi sínu. Það að þurfa að yfirbuga gesti sem láta ófriðlega og vísa þeim á dyr stendur í beinum tengslum við starf dyravarðar og hann hafi því notað þá kunnáttu og þekkingu sem hann hefur þjálfun til þegar ráðist var á hann. Í kærunni er það einnig ítrekað sem hér skiptir miklu máli, að það sé mjög slæmt ef dyraverðir njóti ekki slysatrygginga við vinnu sína ef þeir hljóti skaða af samskiptum sínum við gesti vinnustaðarins. Með ákvörðun SÍ er gert upp á milli starfsstétta sem ekki fær staðist jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, né almenn sjónarmið um góða stjórnsýsluhætti.

Úrskurðarnefnd almannatrygginga var sammála kæranda að þessu leyti og taldi að ekki beri að túlka slysahugtakið of þröngt. Megintilgangur almannatryggingalaga er að tryggja starfsmenn fyrir tjóni sem þeir verða fyrir við vinnu sína og nefndin telur einnig að almannatryggingalöggjöfin feli í sér sérstakan félagslegan tilgang, sem mæli gegn þröngri túlkun á slysahugtakinu. Úrskurðarnefndin taldi atvikið því falla undir slysahugtakið í 1. mgr. 27. gr. almannatryggingalaga. Dyravörðurinn hafi staðið eðlilega að starfi sínu þegar slysið átti sér stað og ekkert óeðlilegt hafi átt sér stað af hans hálfu við atburðinn. Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands var því felld úr gildi og málinu vísað til þeirra á ný til frekari meðferðar.

Þessi úrskurður er mikils virði fyrir starfandi dyraverði að mati stéttarfélagsins Einingar-Iðju, þar sem hingað til hefur verið byggt á niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar frá árinu 2009 varðandi svipuð atvik, þar sem einstaklingur varð fyrir líkamsárás á vinnustað. Í þeirri niðurstöðu segir að nefndin meti það svo að líkamsárás falli ekki undir skilgreiningu á slysi í skilningi 27. gr. almannatryggingalaga. Þá sé um ásetningsverk að ræða, sem ekki sé hægt að skilgreina sem slys.

Í þessari nýju niðurstöðu er horfið frá eldri sjónarmiðum og það viðurkennt að ekki skuli túlka hugtakið „slys“ of þröngt þar sem megintilgangur lagasetningarinnar sé að tryggja starfsmenn fyrir tjóni sem verður við vinnu. Það er viðurkennt að það felist í starfi dyravarða að ná tökum á aðstæðum ef gestir á vinnustöðum ógni öryggi staðarins og að það geti komið til þess að dyraverðir þurfi að standa í átökum við gesti. Námskeiðin sem haldin eru á vegum sýslumanns og Einingar-Iðju skipta því greinilega máli varðandi rétt viðbrögð í aðstæðum sem kunna að koma upp í starfi dyravarða.

Pacta lögmenn Akureyri