Aftur verður greitt úr Félagsmannasjóði SGS á morgun

1. febrúar sl. var greitt úr Félagsmannasjóði SGS í annað sinn, samtals tæplega 200 milljónir króna til u.þ.b. 4.400 félagsmannainnan SGS. Greitt verður aftur úr sjóðnum á morgun, fimmtudaginn 10. febrúar, þar sem ekki voru allir búnir að sækja um í sjóðinn.

Félagsmönnum aðildarfélaga SGS, sem starfa hjá sveitarfélögum, og eiga eftir að sækja um í sjóðinn er bent á að fylla út þetta form. Fyrirspurnum varðandi greiðslur úr sjóðnum er hægt að koma á framfæri í tölvupósti á netfangið sgs@sgs.is

Félagsmenn aðildarfélaga SGS, þar á meðal Einingu-Iðju, sem starfa hjá sveitarfélögum fá í samræmi við síðustu kjarasamninga greitt 1,5% af launum sínum í Félagsmannasjóð SGS. Þann 1. febrúar ár hvert á að greiða úr sjóðnum. Þeir sem enn eiga eftir að senda inn umbeðnar upplýsingar til SGS geta gert það á heimasíðunni www.sgs.is undir flipanum Félagsmannasjóður. Ekki láta 1,5% framlagið ykkar fara til spillis!

Af hverju fæ ég ekki borgað úr Félagsmannasjóði SGS?

Borið hefur á því að undanförnu að félagsmenn, sem ekki starfa hjá sveitarfélagi, hafa verið að hringja í félagið til að athuga af hverju viðkomandi fái ekki greitt úr Félagsmannasjóði SGS.

Eins og segir hér að ofan þá fá félagsmenn aðildarfélaga SGS, þar á meðal Einingu-Iðju, sem starfa hjá sveitarfélögum í samræmi við síðustu kjarasamninga greitt 1,5% af launum sínum í Félagsmannasjóð SGS. Þá var stofnaður sérstakur Félagsmannasjóður með það markmið að stíga skref til jöfnunar lífeyrisréttinda milli starfsmanna sveitarfélaga innan ASÍ við starfsmenn sveitarfélaga sem eru í BSRB. Atvinnurekandi greiðir mánaðarlegt framlag í sjóðinn sem nemur 1,5% af heildarlaunum félagsmanna og er úthlutað úr sjóðnum 1. febrúar ár hvert.