Á vef ASÍ kemur fram að ríki og sveitarfélög auka enn álögur á heimilin með hækkunum á gjaldskrám og neyslusköttum í upphafi árs. Þessar hækkanir skila sér beint út í verðlag og áhrifa þeirra gætir í verðbólgutölum janúarmánaðar sem Hagstofan birti í gær. Samkvæmt þeim hækka opinberar álögur verðlag í janúar um 0,4%. Þau skilaboð sem í þessu felast eru í algjörri andstöðu við þann samtakamátt um aðhald í verðlagsmálum sem lagt var upp með við endurskoðun kjarasamninga fyrr í mánuðinum. Opinberir aðilar ættu þar að ganga á undan með góðu fordæmi.
Hækkanirnar nú koma til viðbótar síendurteknum hækkunum á opinberum álögum sem valdið hafa aukinni verðbólgu síðustu ár og ASÍ fjallaði um í liðinni viku.
Mest áhrif nú hafa hækkanir á fasteignagjöldum sveitarfélaganna, þ.e. sorphirðugjöldum, holræsagjöldum og vatnsskatti. Flest sveitarfélög hækkuðu gjöld fyrir þessa þjónustu nú um áramót en skv. vísitölu neysluverðs hækkuðu þau í heildina um 7,3% og hafa 0,13% áhrif til hækkunar á verðlagi.
Opinberar álögur á tóbak hækkuðu um áramótin en þá hækkaði tóbaksgjald um 20%. Sú hækkun skilar sér í um 9% hækkun á útsöluverði tóbaks sem veldur 0,12% hækkun á verðlagi en í heildina hækkaði tóbak þó mun meira í janúar eða um tæp 18%.
Kostnaður barnafjölskyldna fyrir leikskóla og skóladagvist hækkar sömuleiðis og hefur áhrif á verðbólguna. Leikskólagjöld hækka um 5,1% og gæsla í grunnskólum um 4,3%, samanlagt hafa þessir liðir 0,05% áhrif til hækkunar á verðlagi.
Heilbrigðisþjónusta hækkaði skv. vísitölu neysluverðs um 2,7% í janúar og hefur það 0,06% til hækkunar á verðlagi. Þetta skýrist af almennum hækkunum á gjaldskrám heilbrigðisþjónustunnar um 5-7% um áramót, að heilsugæslunni undanskilinni.
Flest orkufyrirtæki hækkuðu gjaldskrá sína fyrir raforku og heitt vatn um áramót auk þess sem skattur á raforkusölu hækkaði þá úr 0,12 kr/kWst. í kr. 0,126 kr/KWst. Þetta skilar sér í 1,1% hækkun á rafmagni og hita í vísitölunni sem veldur um 0,03% hækkun á verðlagi.
Áhrif helstu hækkana á opinberum álögum á verðlag í janúar 2013
Liður | Hækkun | Vísitöluáhrif |
Fasteignagjöld - sorp, holræsi, vatn | 7,3% | 0,13% |
Tóbak | 18% / 9%* | 0,23% / 0,12%* |
Heilbrigðisþjónusta | 2,7% | 0,06% |
Leik- og grunnskólar | 5,1% / 4,3% | 0,05% |
Rafmagn og Hiti | 1,1% | 0,03% |
Samtals | 0,39% |
* Áhrif sem rekja má til hækkunar á tóbaksgjaldi
Enn von á meiru
Þann 1. mars nk. tekur gildi hækkun á vörugjöldum á sykraðar matvörur og mun sú hækkun að líkindum skila sér út
í verðlag á vordögum. Erfitt er að áætla áhrif þeirra breytinga en skv. frumvarpinu sem samþykkt var í desember er talið að
hækkunin muni leiða til 0,01% hækkunar á verðlagi. Þá hækkar virðisaukaskattur á gistiþjónustu þann 1. september nk. og er
sömuleiðis gert ráð fyrir að sú hækkun leiði til 0,01% hækkunar á verðlagi.