Afnám vörugjalda og lækkun á VSK

Frá því í október 2014 hefur verðlagseftirlit ASÍ skoðað verðbreytingar á byggingavörum vegna afnáms vörugjalda um áramótin og lækkunar á virðisaukaskatti. Verðlagseftirlitið áætlar að verð á byggingavörum sem áður báru 15% vörugjöld ættu að lækka um 14% við afnám vörugjaldanna og þegar lækkun á virðisaukaskattinum úr 25,5% í 24% er tekin með í reikninginn ætti lækkunin að vera 15,2%. Þetta eru byggingavörur s.s. gipsplötur, gólfefni, vaskar og salernisskálar. 

Litlar verðbreytingar 
Í meðfylgjandi töflu má sjá samanburð á könnunum sem verðlagseftirlitið framkvæmdi á byggingavörum annars vegar í október 2014 og hins vegar í apríl 2015. Taflan sýnir fjölda þeirra vara sem kannaðar voru í hverri verslun og hvernig verð á þeim breytist á tímabilinu. Í ljós kemur að verðlækkanir eru takmarkaðar. Í 36% tilvika eru vörurnar enn á sama verði og í fyrri mælingu, í 27% tilvika hefur verðið lækkað um 0-4,9% en aðeins í um þriðjungi tilvika er lækkunin meiri en 5%.

Bauhaus lækkaði ekki verð í tæplega 85% tilvika, Húsasmiðjan ekki í tæplega 45% tilvika og verðlækkanir í Byko voru innan við 5% í tæplega 90% tilvika. 
Verslanirnar; Birgisson, Egill Árnason og Harðviðarval eru þær verslanir sem hlutfallslega oftast lækkuðu verð um 15% eða meira eða í nálægt 2/3 tilfella.