Í upphafi árs voru tollar felldir niður af fatnaði og skóm. Samkvæmt mati Fjármála- og efnahagsráðuneytis átti afnámið að skila að meðaltali 13% verðlækkun til neytenda á þeim vörum sem áður báru tolla. 60% vara í vöruflokknum báru toll fyrir breytingarnar. Því má áætla að afnám tolla af fötum og skóm hefði átt að að skila um 7,8% lækkun á fötum og skóm í vísitölu neysluverðs. Þetta kemur fram á vef ASÍ.
Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig gengisvísitala og verð á fatnaði og skóm í vísitölu neysluverðs hafa þróast frá því í ágúst 2014 þar til nú í september. Eins og sjá má eru árstíðarsveiflur verulegar í kringum sumar- og vetrarútsölur og gengi krónunnar hefur undanfarin tvö ár styrkst um tæplega 20%. Verð á fötum og skóm í vísitölu neysluverðs hefur hins vegar aðeins lækkað um 6% frá því í september 2014 og þarf af um 4,5% undanfarið ár sem er mun minni lækkun en vænta mátti af tollabreytingunni einni.
Barnaföt lækka mest en kvenskór hækka
Þegar undirliðir vísitölunnar eru skoðaðir nánar má sjá að fataefni hefur lækkað um 35% frá því í september í fyrra og fylgihlutir fatnaðar hafa lækkað um 13,9%. Þá hafa kvenmannsföt aðeins lækkað um 4,3% á tímabilinu á meðan að karlmannsföt lækka um 6,6% og barnaföt um 8,5%. Þá vekur athygli að karlmannskór og barnaskór hafa lækkað um tæplega 2% en kvenskór hafa hins vegar hækkað í verði um 7% frá sama tíma í fyrra.
Verðlagseftirlit ASÍ mun halda áfram að fylgjast með þróun verðlags til að sjá hvort að afnáminu verði skilað að fullu til neytenda.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.