Síðustu 15 mánuði meðan Covid faraldurinn hefur hrellt heimsbyggðina hefur vinnandi fólk haldið samfélögunum gangandi, það hefur hjúkrað, haldið upp framleiðslu á ýmsum sviðum og þannig forðað því að efnahagslífið legðist í dróma. Þrátt fyrir þetta er sótt að vinnandi fólki víða um heim sem aldrei fyrr.
Í nýrri skýrslu ITUC Global Rights Index 2021 kemur fram að víða um heim standa stjórnvöld og fyrirtæki fyrir grímulausri aðför að stéttarfélögum og samtökum launafólks. Verst er ástandið í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Skýrslan opinberar að öryggi á vinnustöðum hefur víða minnkað og starfsemi verkalýðsfélaga hefur verið takmörkuð í löndum eins og Hvíta-Rússlandi, Kólumbíu, Kambódíu og Myanmar. Þá hefur eftirlit með starfsfólki verið aukið t.d. hjá risafyrirtækinu Amazon og réttindi verið skert eða þau afnumin með lagabreytingum stjórnvalda eins og í Honduras, Indlandi, Indónesíu, Slóvakíu og Úrúgvæ.
Í skýrslu ITUC hefur 149 löndum verið raðað upp eftir því hvernig réttindum verkafólks er háttað (Ísland er í hópi 11 ríkja sem fær bestu einkunn).
Meðal niðurstaðna er:
- 87% ríkja brjóta verkafallsrétt launafólks
- 79% ríkja brjóta rétt verkafólks til að gera kjarasamninga
- 74% ríkja hindra verkafólk í að stofna eða ganga í verkalýðsfélög
- Fjölda ríkja sem hindrar skráningu stéttarfélaga jókst úr 89 árið 2020 í 109 árið 2021
- Tvö ný ríki komust á listann árið 2021 þar sem réttindi og aðstæður verkafólks eru verst (Hvíta-Rússland og Myanmar)
- Verkafólk í 45 löndum er útsett fyrir ofbeldi í vinnunni
- Verkafólk í 65% landa hefur lítinn eða engan lagalegan rétt
- Verkafólk í 68 löndum upplifði tilefnislausar handtökur
- Félagar í verkalýðsfélögum voru myrtir í sex löndum; Brasilíu, Kólumbíu, Gvatemala, Myanmar, Nígeríu og á Fillipseyjum.
Lesa má skýrslu ITUC hér.