Í gær, 24. júní, var farið í árlega dagsferð fyrir aldraða félagsmenn. Ekið var af stað frá Akureyri kl. 9:00 og var stefnan tekin á Sauðárkrók. Ekið var sem leið lá yfir Öxnadalsheiði og eftir að hafa stoppað aðeins í Varmahlíð og kíkt á Grettislaug á Reykjaströnd var snæddur hádegisverður á Kaffi Krók á Sauðárkróki. Eftir hádegi var farið fyrir Skagann og kíkt í Spákonuhof á Skagaströnd. Næst var ekið yfir Þverárfjall og síðan eins og leið lá til Siglufjarðar þar sem drukkið var síðdegiskaffi á Kaffi Rauðku. Að því loknu var keyrt til Akureyrar á ný.
Um 50 félagsmenn fóru að þessu sinni í ferðina sem tókst í alla staði mjög vel. Einn ferðalangur var í þriðja sinn að keyra fyrir Skagann og sagði að loks hefði hann séð eitthvað því í hin tvö skiptin var svarta þoka á svæðinu.
Leiðsögumaður í ferðinni var Óskar Þór Halldórsson og Kristján Davíðsson, bílstjóri hjá SBA, sá um aksturinn og var klappað fyrir þeim í lok ferðar fyrir vel unnin störf.