Aðalræða 1. maí hátíðarhaldanna komin á netið

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu, flutti aðalræðu hátíðarhaldana í gær þann 1. maí. Ræðuna í heild má lesa hér fyrir neðan. 

Ágætu félagar!

Til hamingju með baráttudaginn 

Níutíu ár eru síðan fyrsta maí kröfugangan á Íslandi var gengin. Það var árið 1923 sem hann var haldinn hátíðlegur fyrst og gerður lögskipaður frídagur árið 1972.

1. maí gengur launafólk undir rauðum fána og leikinn er Nallinn. Sumir hugsa aðallega um alræðisvald kommúnistastjórna þegar þeir sjá fánann og heyra sönginn. Rauði liturinn á fána verkalýðshreyfingarinnar táknar uppreisn gegn ranglæti, krafa um breytingar og réttlátara þjóðfélag.

Já ég sagði „uppreisn gegn ranglæti“ og það ranglæti sem nú þarf að gera uppreisn gegn, er launamismunur á milli karla og kvenna. Hvers vegna er enn verið að berjast við þau viðhorf að karlar og konur eigi að fá sömu laun fyrir sömu vinnu? Af hverju er það ekki sjálfsagt að kynin séu á sömu launum í sama starfi?

Á Íslandi mælist launamunur kynjanna 7-18% eftir því hvaða hópar eru mældir og eru vísbendingar um að launamunurinn sé mun meiri á landsbyggðinni. Niðurstöður úr könnum sem BSRB sýndi fyrir ári síðan að á meðal fólks í 100% starfi eru konur að jafnaði með 26% lægri uppreiknuð heildarlaun en karlar. Þegar tekið hafði verið tillit til aldurs, vinnutíma, starfsaldurs, starfsstéttar, menntunar, atvinnugreinar og vakaálags kom í ljós að munur á heildarlaunum karla og kvenna var 13,1%. 

Kynbundni launamunurinn mældist nokkuð misjafn á milli landshluta. Mestur var hann á Vesturlandi, Vestfjörðum og Suðurlandi eða um 19%, á Norðurlandi er hann 13,4% en minnstur var launamunurinn á Austurlandi eða10%. 

Könnun BSRB sýnir líka að konur fá síður hlunnindi og aukagreiðslur en karlar. Þessar aukagreiðslur hafa verið að aukast aftur núna allra síðustu misserin eftir að hafa verið skornar verulega niður eftir efnahagshrunið. Þessar greiðslur virðast í ríkari mæli rata í launaumslög karla en kvenna sem kann að hluta að útskýra hvers vegna kynbundni launamunurinn er aftur að aukast.

Launakönnun BSRB sýnir einnig að konur eru ósáttari við laun sín en karlar og álag hefur frekar aukist hjá konum en körlum samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar. 

Launamunur minnkaði í kjölfar kreppu árið 2008 en nú árið 2013 er hann aftur farin að aukast. Við leyfðum okkur að fagna því að launamunur væri að minnka um hænufet, en ekki mátti líta undan eitt andartak því þá er hann farin aftur að aukast. Starfsmatið, sem tryggir sömu laun fyrir sömu og sambærilegu störf hjá sveitarfélögum í grunninn, virðist ekki koma í veg fyrir það að samt sem áður ná karlar að fá aukagreiðslur sem gerir þeim kleift að vera með hærri heildarlaun en konur. Hvað er til ráða? Hvað veldur? 

Þróað hefur verið svonefndur jafnlaunastaðall á vegum Staðlaráðs Íslands. Staðallinn veitir atvinnurekendum leiðbeiningar um hvernig megi þróa og framkvæma gagnsætt launakerfi sem metur verðmæti starfa. Samkvæmt staðlinum er hægt að votta hvort atvinnurekandi er í raun að greiða jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf. Vonir standa til að sem flestir innleiði staðallinn enda ein leiðin til að útrýma kynbundnum launamun.

Launaleynd þarf að uppræta því að þrátt fyrir að - svonefnd launaleynd-  hafi verið afnumin með breyttum jafnréttislögum árið 2008 er hún enn við lýði. Nýlega tók ég þátt í umræðum launamanna sem höfðu skrifað undir ákvæði þess efnis að laun þeirra væru trúnaðarmál við undirritun ráðningarsamnings. Samkvæmt lögum er okkur heimilt að skýra frá launum okkar ef við svo kjósum. Við viljum að launaákvarðanir séu réttlátar og gegnsæjar.

Við viljum að þær byggi á málefnalegum grunni.

Það er eðlilegt að við séum ekki öll á sömu launum á sama vinnustað en ástæður þess eiga að vera skýrar en ekki launungarmál. Þá er því ósvarað hvers vegna vinnuveitendur vilja fara leynt með launamálin.

Það er mikilvægur liður í baráttunni gegn launamun kynjanna að auka gegnsæið – að tala um launin. Öðruvísi höfum við ekki viðmið. Þannig getum við metið okkur sjálf, borið okkur saman við aðra og verið viss um að við séum metin til jafns við fólk í svipaðri stöðu. 

Burt með launaleynd!

Jafnréttisstofa minnir á að launamunur kynjanna hefur mælst svipaður í fjölda ára en í ár eru 51 ár frá gildistöku fyrstu laga um launajöfnuð kvenna og karla og því óásættanlegt að ekki hafi þokast lengra í að eyða launamisrétti kynjanna.

Lögbrot eru framin á öllu landinu!

Íslenskur vinnumarkaður er mjög kynskiptur en það hefur tvímælalaust viðhaldið launamisrétti kynjanna þar sem viðurkennt er að hefðbundin kvennastörf eru minna metin en hefðbundin karlastörf.
Mjög aðkallandi er að fyrirtæki og stofnanir fari í sjálfskoðun, geri reglulegar mælingar á launagreiðslum og leiðrétti launamismunun.

Það eru allir að kalla eftir launajafnrétti það er þörf á viðhorfsbreytingu, samvinnu og aðgerðum stjórnvalda og stéttarfélaga til að vinna bug á kynbundna launamisréttinu og er samvinna aðila vinnumarkaðarins og samstaða um að taka á málum. Allir þurfa að leggja sitt af mörkum til að fullt jafnrétti ríki!

Launamunurinn hefur tilhneigingu til að aukast ef ekki er fylgst vel með. Opinberir aðilar verða einnig að vera til fyrirmyndar og hefur Akureyrarbær náð árangri og hefur hann mælst þar með því lægsta hjá einstöku sveitarfélagi en þar einnig hefur launamunur aukist nú.

Þessari viðhorfsbreytingu verður að ná fram karlar og konur í stjórnunarstöðum verða að sýna samfélagslega ábyrgð og gæta að því að launajafnrétti verði náð og það haldist. Karlar verða sætta sig við að konan gæti verið með hærri laun ef hún er í hærra metnu starfi. Við viljum að bæði börnin, strákurinn og stelpan fái sömu laun fyrir sama starfið.

Það er búið að gera það mikið af könnunum og allar eru þær gerðar eftir viðurkenndum aðferðum af viðurkenndum aðilum sem sýna kynbundin launamun. Það þarf ekki fleiri kannanir þetta er staðreynd svo nú er bara komin tíma til athafna.

Og stíga skrefið til fulls. Og hana nú!

Það er líka ólýðandi launamunur sem er á milli landsbyggðar og höfuðborgar. Fyrirtæki sem rekin eru á báðum stöðum eru ekki að greiða sömu laun fyrir sömu störf eftir því hvort þau eru í Reykjavík eða Akureyri – Sömu störf en ekki með sömu laun. 

Burt með launamismuninn! 

Niðurskurður hjá því opinberra, sveitarfélögum og ríki hefur ekkert stöðvast síðan árið 2008 það er enn verið að fækka fólki, enginn ráðinn í manns stað og fólki gert að lækka starfsprósentu sína. Verkefnum velt yfir á þá sem eftir standa. Þeir fá ekki hærri laun – álagið hefur aukist gífurlega – starfsemi stofnana hafa margfaldast. Það eru frekar konur sem starfa við opinbera þjónustu  hvort sem er á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum, með fötluðum eða í skólum. Starfsfólk stendur frammi fyrir því að störfin færast á færri og færri hendur. 

Við höfum búið við samtryggingarkerfi sem að grunni til er gott. Stoðir þessa kerfis eru almannatryggingar, lífeyrissjóðir og ýmsir þættir velferðarþjónustu og vegur heilbrigðiskerfið þar þyngst. 

Í lífeyrissjóðunum er ekki spurt um það hvort foreldrar hafi haft heila- eða taugasjúkdóma eða krabbamein. Inn á heilsugæslustofnunum og á sjúkrahúsum hafa allir þeir sem eru sjúkir eða illa á sig komnir fengið aðhlynningu og lækningu. Hlúð hefur verið að fólki ef það hefur verið sjúkt og einu látið gilda hvort það hafi haft sykursýki, krabbamein, nýrnasjúkdóm eða aðra sjúkdóma sem tryggingafélag setur fyrir sig.

Aðeins er spurt: Hvernig líður þér, hvað get ég gert fyrir þig? 

Þetta er það kerfi sem við verðum að hlúa að og látum ekki rífa niður! 

Góðir félagar!

Stéttarfélögin og atvinnurekendur hafa sannmælst um að breyta vinnubrögðum við gerð kjarasamninga. Þessir aðilar eru sammála um að vinna þurfi að bættum vinnubrögðum í kjarasamningi að frumkvæði BSRB. Svo að vinnan megi vera markvissari. Það leiðir vonandi til betri kjara fyrir félagsmenn. Sérstaklega er mikilvægt að tryggja að kjarasamningur taki við af kjarasamningi svo að kjarasamningar séu ekki lausir svo mánuðum eða árum skipti.

Samtök launafólks eru ekki lítil og smá - þau eru stór og búa yfir miklu afli. Í sameiningu - með samtakamættinum skulum við virkja það afl sem í hreyfingunni býr, öllum landsmönnum til hagsbóta.

Að mörgu er að taka sem ég hefði viljað draga hér fram sem verkalýðshreyfingin hefur verk að vinna að. Tryggja þarf að atvinnuleitendur fái tækifæri til að kynnast vinnumarkaðnum og á ég þá sérstakalega við um unga fólkið okkar frá 16 til 25 ára og er það mikið áhyggjuefni þeirra litlu atvinnumöguleikar. Þetta er ekki einsdæmi hér á Íslandi, þetta er vaxandi áhyggjuefni á Norðurlöndunum og í Evrópu.

Það þarf að fara fram alvarleg umræða um styttingu vinnuvikunnar sem stuðlar að fjölskylduvænni vinnumarkaði og kjarabót fyrir fjölskyldurnar í landinu.

Eigið góðan dag!