Aðalfundur orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum

Síðastliðinn föstudag fór fram aðalfundur orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum. Þar fóru fram venjuleg aðalfundarstörf ásamt því að Ágúst Hafsteinsson, arkitekt hjá Form á Akureyri, greindi frá stöðu skipulagsvinnu á jörðinni. 

Hákon Hákonarson, fyrrum formaður FMA, sem unnið hefur fyrir orlofsbyggðina með einum eða öðrum hætti allt frá árinu 1978 hætti sem formaður stjórnar á fundinum. Í hans stað var kosinn Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju. Einnig gekk úr stjórninni Einar Hjartarson frá FVSA sem setið hefur í henni í þó nokkuð langan tíma. Björn færði Hákoni og Einari blóm frá byggðinni og þakkaði þeim góð störf í þágu orlofsbyggðarinnar.

Núverandi stjórn orlofsbyggðarinnar skipa: Björn Snæbjörnsson formaður, Jóhann Rúnar Sigurðsson frá FMA, Jón Rögnvaldsson varaformaður frá FVSA, Þorsteinn E. Arnórsson frá Einingu-Iðju og Sveinn Ingvason frá Eflingu. Varamenn í stjórn eru: Anna Júlíusdóttir frá Einingu-Iðju og Georg Páll Skúlason frá FBM.