Aðalfundur Einingar-Iðju stendur nú yfir

Mjög góð mæting er á aðalfund félagsins.
Mjög góð mæting er á aðalfund félagsins.

Aðalfundur félagsins stendur nú yfir í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Nú er Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, að flytja skýrslu stjórnar þar sem hann sagði m.a. að undirbúningur kjarasamninga reyni verulega á félagsstarfið og sýni líka hvað tengslin eru raunverulega góð. „Það vantar stundum í umræðuna að félagið er fólkið sem í því er, en ekki starfsmenn á skrifstofu eða stjórn félagsins. Styrkur félagsins liggur í þessari staðreynd og góðum tengslum milli stjórnarinnar og félagsmannanna.“

Hann sagði jafnframt að árið 2018 hefði verið undirbúningsár fyrir kjarasamningana sem verið væri að vinna að þessa dagana. „Það er frábært að vinna með öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóginn við undirbúning og aðkomu að kröfunum, svo sem í  trúnaðarráðinu, samninganefndinni og ekki síst öllum trúnaðarmönnunum sem leggja sig í líma við að koma boðskap félagsins til starfsfélaga sinna og ekki síður að upplýsa okkur á skrifstofunni um stöðu mála á hverjum stað fyrir sig.

Á vinnustöðunum eru um það bil 140 trúnaðarmenn. Þar eru auðvitað mismunandi aðstæður, sem kalla á meiri vinnu hjá sumum en öðrum, en allir trúnaðarmennirnir skila frábæru starfi. Það voru einmitt trúnaðarmenn sem voru lykillinn að því hvað vel tókst til við gerð könnunar um hverjar yrðu aðaláherslurnar í komandi samningum og þeirra þáttur stærstur að koma á fundi og fylgja eftir því sem vinnufélagarnir vildu. Það er frábært að fá rúmlega 2.000 manns til að koma að þessari vinnu. Allur þessi fjöldi gefur forystunni aukinn kraft til að fylgja kröfunum eftir af meiri ákveðni en ella.“ 

Nánar verður sagt frá fundinum á heimasíðu félagsins á morgun og næstu daga.