Aðalfundur Einingar-Iðju stendur nú yfir

Aðalfundur félagsins stendur nú yfir í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Nú er Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, að flytja skýrslu stjórnar þar sem hann sagði m.a. „Á skrifstofunni hjá okkur eru nú tveir starfsmenn sem hafa lögfræðimenntun og veitir ekki af í harðnandi heimi. Við aukin verkefni er nauðsynlegt að þjappa fólki saman, t.d. að sameina félög til að gera þau öflugri. Mig dreymir um að öll almenn félög á Eyjafjarðarsvæðinu muni sameinast í eitt deildarskipt félag eftir starfsgreinum. Einnig myndi vera raunhæfur kostur að Norðurland-vestra kæmi inn í þessa sameiningu. Í mínum huga er það ekki hvort heldur hvenær við verðum gleypt af félögunum á höfuðborgarsvæðinu í landsfélög ef við þjöppum okkur ekki saman sjálf á okkar landssvæði. Samstaða félaga af sama svæði með sambærilega bakgrunn er það sem við eigum að horfa á. Vinnum saman og munum að við höfum farið í gegnum sameiningar með góðum árangri, notum þekkingu okkar í þessum efnum og göngum lengra.

Á síðustu vikum og mánuðum hafa verið deilur innan hreyfingarinnar og ýmislegt látið flakka. Höldum við í alvöru að lausnin sé að sundra ASÍ enn frekar en orðið er?

Væri ekki nær að vinna þéttar saman með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi heldur en að fylgja einhverjum formönnum sem þola ekki hvorn annan. Það á enn við og við skulum aldrei gleyma því að samstaða er styrkur en sundrung er veikleiki. Þannig hreyfingu vil ég ekki að verði ofan á í okkar samfélagi.

Af hverju er ég að tala um þetta? Ég hef áhyggjur ef einhver er ósammála fjöldanum þá koma hótanir um úrsögn úr ASÍ. Hverjum gagnast þetta? Allavega ekki launþegum þessa lands heldur atvinnurekendum og stjórnvöldum.

Margt hefur gerst frá síðasta aðalfundi okkar og þar ber kannski hæst ákvörðunin um að segja ekki upp samningum nú í febrúar. Af hverju var það ekki gert, þar sem menn voru sammála innan ASÍ um að forsendurnar hefðu brostið? Það var lýðræðisleg atkvæðagreiðsla meðal fulltrúa þeirra 59 félaga sem eru innan ASÍ og þetta varð niðurstaðan.

Ég sagði nei við uppsögn og var það í samræmi við samþykkt trúnaðarráðs félagsins sem nokkrum dögum áður fór ítarlega yfir kosti og galla þess að segja upp samningunum. Niðurstaðan í ráðinu varð að rúmlega 75% vildu ekki segja upp, en þetta var fjölmennur fundur og trúnaðarráðið er þverskurður af félaginu. Einnig höfðum við rætt þetta á fundum í svæðisráðum félagsins og á ýmsum öðrum fundum og niðurstaðan var einnig sambærileg þar. Við skulum ekki gleyma því að stjórnvöld tilkynntu að atvinnuleysisbætur munu hækka í 90% af lágmarkslaunum en þau voru aðeins 74% fyrir þessa ákvörðun. Einnig verður sett á fót samráðshópur til að létta skattbyrði á þeim er minnst hafa. Á trúnaðarráðsfundinum var rætt um að menn vildu fá umsamda launahækkun þann 1. maí nk, það er almenn hækkun 3% og að lágmarkslaunin færu í 300.000 eins og aðalkrafan okkar var í síðustu samningum.

Einnig kom fram að menn vildu undirbúa vel næstu samninga og fá sem flesta félagsmenn til að koma að kröfugerð með ýmsum hætti. Nú eftir aðalfundinn verður samninganefndin kölluð saman og verkið skipulagt.

Þið munuð verða vel vör við þessa vinnu því við munum gera allt til að ná til sem flestra látið ykkur dreyma um það að þið verðið látin í friði. Þið eruð grasrótin og það eru þið sem mótið stefnuna.

Í fyrsta skipti reyndi á að þeir sem vinna hjá ríki og sveitarfélögum fengu auka kauphækkun vegna launaskriðs á almennum markaði.

Ríkisstarfsmenn fengu 1,8% frá 1. janúar 2017og líka 0,5% frá 1. janúar 2018. Starfsmenn sveitarfélaga fengu 1,4% frá 1. janúar 2018. Af hverju kom þetta til? Jú í síðustu samningum var gert svokallað SALEK samkomulag og það samkomulag var með því innanborðs að ef yrði launaskrið á almennum markaði mundu þessir aðila njóta þess og þetta samkomulag sem ekki má nefna hefur allavega hjálpað þessu fólki.“ 

Nánar verður sagt frá fundinum á heimasíðu félagsins á morgun og næstu daga.