Aðalfundur Einingar-Iðju stendur nú yfir

Aðalfundur félagsins stendur nú yfir í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Nú er Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, að flytja skýrslu stjórnar þar sem hann hefur m.a. fjallaði um stöðuna í þjóðfélaginu og sagði m.a. að þjóðfélagið okkar er að þróast til verri vegar og er farið að líkjast ástandinu fyrir hrun. „Við sjáum hvernig þeir sem betur mega sín hrifsa til sín meira og meira og skilja þá verst settu eftir. Meiri hluti þjóðarinnar vill ekki hafa þetta svona og fyrr en seinna munu verða hörku átök, ekki bara um laun heldur um að menn geti lifað eðlilegu lífi í þessu landi. Það eru alltof margir sem eiga ekki fyrir næstu máltíð eða geta ekki veitt sér og fjölskyldu sinni það sem eðlilegt má teljast. Það eru margir á okkar félagssvæði sem búa við þannig kjör. Þetta er ólíðandi.Eigum við að samþykkja að þeir sem komu okkur á kopp, ólu okkur upp og lögðu grunninn að því sem við höfum í dag geti ekki lifað mannsæmandi lífi og þurfi að horfa í hverja krónu til að geta eða geta ekki haft ofan í sig eða á í lok hvers mánaðar. Ég segi nei þetta er skömm fyrir okkur sem þjóð.“

„Mér er minnisstætt að fyrir nokkrum árum var ég vitni að umræðu um stéttarfélög og lífeyrissjóði, þar sem menn á miðjum aldri voru að ræða málin og voru ekki spöruð stóru orðin um hvað þetta væri allt til óþurftar og bara væri verið að stela af þeim peningum og ég tala nú ekki um lífeyrissjóðina sem væru algjör krimmafyrirtæki sem menn fengju aldrei neitt úr. Allir virtust hafa sömu skoðanir…. nema einn. Hann tók ekki þátt í þessum umræðum. Ég þekkti hann og vissi að hann hafði lent í áfalli og í framhaldinu gat hann ekki unnið í tvö ár.    Allt í einu spratt hann á fætur og sagði: „Ég ætla bara að láta ykkur vita að ef ég hefði ekki haft stuðning míns stéttarfélags með greiðslur úr sjúkrasjóði og síðan örorkubætur frá lífeyrissjóðnum mínum þá væri ég öreigi í dag, þessi aðstoð bjargaði mér og fjölskyldu minni í þessum hremmingum. Það veit enginn hvað lífið býður okkur uppá og ég held að við ættum að tala minna um það sem við vitum ekki um“ svo labbaði hann í burtu en það var ekki meira rætt um þessi mál.

Af hverju er ég að ræða þetta?  Það er vegna þess að út í þjóðfélaginu er umræðan neikvæð og of oft eru  menn að tala um hluti sem þeir vita ekki um eða hafa reynslu af. Við þekkjum öll kaffistofu- og eldhúsumræðuna.

Ég les oft blogg sem tengjast Einingu-Iðju. Þar eru stundum ekki spöruð stóru orðin um hversu lélegt félagið okkar sé og það sé einhver munur eða önnur félög. Þetta fólk, sem felur sig á bakvið skjáina kemur ekki á fundi, kemur ekki á skrifstofurnar og segir ekki orð á vinnustaðafundum. Lætur sem sagt alls ekki í ljós neina óánægju. Öll umræða er góð og nauðsynleg en þarf að vera á þeim nótum að sanngirni sé gætt og menn viti hvað þeir eru að tala um.

Stundum er það auðvitað þannig að menn eru metnir af því hvað þeir geta slegið mikið um sig og verið nógu harðir í umræðunni en þeir sem hafa lægra taldir ekki vera að gera neitt. Sannleikurinn er sá að þeir sem hafa lægra ná oft betri árangri, en það er ekki endilega auglýst á torgum til að hæla sér af því,“ sagði Björn m.a. er hann flutti skýrslu stjórnar.

Nánar verður sagt frá fundinum á heimasíðu félagsins á morgun.