Fjölmennur aðalfundur félagsins stendur nú yfir í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Nú er Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, að flytja skýrslu stjórnar þar sem hann hefur m.a. fjallaði um verkföllin í fyrra. „Það var gaman sl. vor að sjá hvernig félagsmenn stóðu saman þegar farið var í verkfallsaðgerðir til að koma Samtökum atvinnulífsins að samningaborðinu. Það var ekki hægt að tala um að menn hafi ekki virt verkfallið og þarna voru flestir að taka þátt í verkfalli í fyrsta sinn. Það var svolítið um það að menn gengu í verkstjórafélagið til að sleppa við verkfallið. Reyndar hef ég velt því fyrir mér hver stjórni orðið á sumum vinnustöðum, þar sem verkstjórar eru orðnir nokkuð margir. Þar með er ég ekki að segja að þeir hafi ekki verið verkstjórar áður, en verkfallið hafi minnt þá á að vera í réttu félagi.
Annað sem kom í ljós í verkfallinu var að nokkuð var um að starfsmenn væru í öðrum félögum þótt þeir væru að vinna eftir okkar samningum og töxtum. Í sumum þessara tilfella bera menn við félagafrelsi. Þetta þýddi að þeir voru ekki í verkfalli og hirtu svo ávinningin þegar búið var að semja. Félagafrelsi er skilgreint þannig að viðkomandi atvinnurekanda ber samkvæmt kjarasamningum að greiða gjöld til þess félags sem er með samningsréttinn fyrir viðkomandi starfsgrein. Starfsmaðurinn ákveður sjálfur hvort hann vill vera félagsmaður eða ekki, en vinnuveitandi hans verður að greiða gjöldin til félagsins.“
Björn fjallaði einnig um sameiginlega baráttu stéttarfélaga frá því ASÍ var stofnað fyrir 100 árum. „Á þessu ári eru 100 ár liðin síðan Alþýðusamband Íslands var stofnað og ljóst að mikið hefur gerst á þessum 100 árum, en alltaf finnst manni það vera sömu málin sem eru á dagskrá ár eftir ár, að reyna að semja um mannsæmandi laun til að bæta kjörin og verja þau réttindi sem stéttarfélögin hafa náð. Það er raunar ótrúlegt að geta ekki, eftir þessi hundrað ár, sagt að við höfum náð takmarkinu! En ef við lítum til upphafsins, höfum við samt náð afar miklum árangri, en það verður aldrei einhver lokasigur, þetta er langhlaup, sem aldrei lýkur.
Ég tel að menn séu ekki í raun að meta allt sem hefur áunnist. Það eru margir, sérstaklega yngra fólkið, sem hugsa ekki út í að þessi réttindi hafi ekki bara alltaf verið, gera sér ekki grein fyrir baráttunni sem réttindin hafa kostað í gegnum tíðina. Þeir sem hafa stöðu til þess að semja sjálfir um laun sín við vinnuveitandann eru margir hverjir neikvæðir út í stéttarfélögin og telja að ekkert sé með þau að gera, því þeir vilja túlka það svo að félögin séu ekkert að gera fyrir viðkomandi þó að kauphækkunin sé jafnvel sú sama og félagið hefur samið um. En af hverju eru menn með orlof, veikindarétt, sjúkrasjóði, lífeyrissjóði, samning um 40 stunda vinnuviku svo ég tali nú ekki um atvinnuleysisbætur ef menn missa vinnuna. Þetta er bara hluti af því sem hefur náðst í sameiginlegri baráttu á þessum 100 árum,“ sagði Björn m.a. er hann var að flytja skýrslu stjórnar.
Nánar verður sagt frá fundinum á heimasíðu félagsins á morgun.