Aðalfundur Einingar-Iðju stendur nú yfir

Fjölmennur aðalfundur félagsins stendur nú yfir í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Rétt áðan flutti Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, skýrslu stjórnar þar sem hann fjallaði m.a. um samningaviðræður við Samtök atvinnulífsins. Hann sagði t.d. að framundan væri erfitt vor í samningum. „Það munu verða átök á vinnumarkaði og ég er hræddur um að það muni engir samningar nást nema að verkfallsvopninu verði beitt. Ósanngirni Samtaka atvinnulífsins í garð launafólks er engu lík.

Síðan í október hefur Starfsgreinasamband Íslands, en Eining-Iðja er þar innanborðs, verið í samningaviðræðum við SA, fyrst um allskonar sérmál en síðan í byrjun febrúar um launamál og er skemmst frá því að segja að ekkert hefur gengið. Málinu var vísað til ríkissáttasemjara og hafa verið haldnir margir fundir, sem engum árangri hafa skilað.

Atvinnurekendur tyggja sömu tugguna um að allt fari á hliðina í þjóðfélaginu ef almennt verkafólk fær leiðréttingu á launum sínum og ekki má gleyma söngnum um verðbólguna og vextina sem muni fara á flug. Þessi söngur er mjög þreytandi og áleitinn, og stundum finnst manni eins og það sé vísvitandi verið að vona að þetta síist inn og fólk fari að trúa því að þetta muni gerast.“

Nánar verður sagt frá fundinum á heimasíðu félagsins næsta mánudag.