Aðalfundur Einingar-Iðju 2015 - umfjöllun

Fjölmennur aðalfundur Einingar-Iðju var haldinn í Menningarhúsinu HOFI á Akureyri fimmtudaginn 16. apríl sl. Í skýrslu stjórnar fjallaði Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, m.a. um starfið hjá félaginu. „Aðalfundur er uppgjör stjórnar til félaganna. Það getur oft verið erfitt að taka ákvarðanir fyrir um 7.000 félagsmenn og felst í því mikil ábyrgð. Stjórnin hefur reynt eftir sinni bestu sannfæringu að vinna þannig að okkur farnist sem best. Ábyrgð innan verkalýðsfélags fylgir mikið starf og stundum vanþakklátt, þar sem fyrir kemur að stjórnarfólk verði fyrir óþægilegum athugasemdum og jafnvel árásum vegna starfa sinna.

Starfið í félagi eins og Einingu-Iðju er þó aldrei meira en það sem félagarnir vilja sjálfir. Áhuga- og afskiptaleysi í þessum málaflokki er lenska í þjóðfélaginu í dag. Þar kemur sjálfsagt margt til. Hugsanlega finnst sumum að aðrir eigi að sjá um þessi mál, en ef einstaklingur hefur ekki áhuga á launum sínum eða réttindum, hvað er þá til ráða?

Trúnaðarmennirnir á vinnustöðunum eru okkar akkeri í vinnunni sem fram fer í félaginu, vinnufélagarnir ætlast til þess að þeir mæti á fundi og segi þeim síðan hvað hafi verið gert á fundinum. Það væri síðan náttúrlega best að drífa sig sjálfur á almenna fundi í félaginu og hlusta, en ekki síst að geta komið sínum málum á framfæri við stjórnina.

Af hverju er ég að fjalla um þetta? Það er vegna þess að menn eru oft mjög dómharðir á þá vinnu sem fram fer í félaginu og þá helst þeir sem aldrei mæta á fundi eða sinna öðru því sem félagið er að gera. Það er svo auðvelt að „blogga“ með kvart og kvein. Það er auðveldara að sitja fyrir framan tölvuna en að standa fyrir framan þá sem verið er að gagnrýna. Niðurstaða könnunar sem Capacent gerði fyrir okkur í fyrra sýndi samt að tæplega 94% félagsmanna voru ánægðir með þjónustu félagsins, en þeir sem voru óánægðastir með hana voru þeir sem ekki höfðu nýtt sér neina þjónustu!!! Á hverju byggja þeir þá sitt mat? Er það af afspurn eða er eitthvað annað á bak við? Könnunin sýndi einnig að 62% félagsmanna höfðu nýtt sér einhverja þjónustu frá félaginu sl. 12 mánuði. Það er frábært. Þrátt fyrir allt, hefur yfirleitt ekki verið vandamál að fá fólk til trúnaðarstarfa hjá okkur, frekar hefur verið sóst eftir því en hitt,“ sagði Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, m.a. er hann flutti skýrslu stjórnar á fjölmennum aðalfundi félagsins. Á fundinum var farið yfir ársreikninga félagsins og einnig voru kosnir 37 fulltrúar Einingar-Iðju á ársfund Stapa.

Björn sagði einnig að Framundan væri erfitt vor í samningum og að það munu verða átök á vinnumarkaði. „Ég er hræddur um að það muni engir samningar nást nema að verkfallsvopninu verði beitt. Ósanngirni Samtaka atvinnulífsins í garð launafólks er engu lík. Síðan í október hefur Starfsgreinasamband Íslands, en Eining-Iðja er þar innanborðs, verið í samningaviðræðum við SA, fyrst um allskonar sérmál en síðan í byrjun febrúar um launamál og er skemmst frá því að segja að ekkert hefur gengið. Málinu var vísað til ríkissáttasemjara og hafa verið haldnir margir fundir, sem engum árangri hafa skilað. Atvinnurekendur tyggja sömu tugguna um að allt fari á hliðina í þjóðfélaginu ef almennt verkafólk fær leiðréttingu á launum sínum og ekki má gleyma söngnum um verðbólguna og vextina sem muni fara á flug. Þessi söngur er mjög þreytandi og áleitinn, og stundum finnst manni eins og það sé vísvitandi verið að vona að þetta síist inn og fólk fari að trúa því að þetta muni gerast.“

Mikil fjölgun
Mikil fjölgun varð í félaginu á síðasta starfsári, 846 einstaklingar gengu í félagið, en 128 gengu úr því, þannig að í raun fjölgaði um 718 manns. „Það er alltaf nokkuð um að menn vilji vera áfram í félaginu, þó að þeir hafi farið yfir á önnur félagssvæði, á hinn bóginn er svo líka að fólk sem flyst á okkar svæði vilji vera áfram í sínu gamla félagi. Við reynum að leysa þessi mál í rólegheitum, þegar þau koma upp. Við höfum gjarnan sagt því fólki sem vill halda áfram hjá okkur að við viljum gjarnan hafa það áfram, en skv. samningum eigi félagsaðildin að vera í því félagi sem fer með samningsréttinn á viðkomandi svæði. Með félagsgjaldagreiðslunni er verið að greiða fyrir aðstoð, ef á þarf að halda. Einnig geta komið upp mjög óþægileg tilvik t.d. í sambandi við verkföll,“ sagði Björn í skýrslu stjórnar.

Í lok árs 2014 voru 183 félagsmenn Einingar-Iðju á atvinnuleysisskrá, þ.e.a.s. þeir sem létu draga félagsgjöld af atvinnuleysisbótunum. Því miður er alltaf eitthvað um að fólk láti ekki draga af sér slík gjöld og tapi þar með réttindum hjá félaginu. Þetta er fækkun um 20 frá árinu á undan.

Sjálfkjörið í stjórn og trúnaðarráð
Sjálfkjörið var í stjórn og trúnaðarráð félagsins þar sem aðeins einn listi barst með tilnefningum. Stjórn Einingar-Iðju skipa nú: Björn Snæbjörnsson formaður, Anna Júlíusdóttir varaformaður, Vilhelm Adolfsson ritari og síðan svæðisfulltrúarnir fimm, þau Guðrún Þorbjarnardóttir, Sigríður Þ. Jósepsdóttir, Hafdís Kristjánsdóttir, Margrét Jónsdóttir og Róbert Þorsteinsson, og formenn deildanna þriggja, þau Sigríður K. Bjarkadóttir, Ingvar Kristjánsson og Margrét H. Marvinsdóttir.

Hér má nálgast ársskýrsluna í heild sinni, sem inniheldur skýrslu stjórnar sem og ársreikning félagsins.