Aðalfundur Einingar-Iðju var haldinn í Menningarhúsinu HOFI á Akureyri fimmtudaginn 10. apríl sl. „Þann 15. maí nk. eru 15 ár
síðan við stofnuðum Einingu-Iðju úr tveimur merkum félögum Einingu og Iðju. Síðan hafa Siglfirðingar bæst í hópinn,
það er að segja Vaka að stórum hluta. Ég var svolítið hræddur um að þegar svona rótgrónum félögum væri
steypt saman yrði einhver óánægja, en það er skemmst frá því að segja að það hefur mjög lítið borið
á því og nú er svo komið að maður heyrir ekkert talað um þetta. Sameiningarnar hafa ekkert gert annað en að styrkja eyfirskt verkafólk
í sinni baráttu, ekki síst hefur sameinað félag verið betur í stakk búið til að taka á vandamálum, ef upp hafa komið.
Þetta sýna kannanirnar sem við höfum látið gera undanfarið 3 ár en Capasent Gallup hefur árlega spurt 1.500 félaga um mörg
málefni sem snerta félagið, þar á meðal hvernig félagsmönnum líki þjónusta sem veitt er til félaganna og hvort þeir
beri traust til félagsins.,“ sagði Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, m.a. er hann flutti skýrslu stjórnar á fjölmennum
aðalfundi félagsins.
Á fundinum var farið yfir ársreikninga félagsins og einnig voru kosnir 33 fulltrúar Einingar-Iðju á ársfund Stapa.
Björn sagði að síðasta starfsár hefði verið kjarasamningaár, allir samningar félagsins hafi verið undir. „Margir komu að þeim og má nefna að samninganefnd félagsins hefur aldrei komið jafn oft saman og hún gerði á starfsárinu.“ Björn minntist einnig á málefni lífeyrissjóða og sagði m.a að Eining-Iðja væri aðili að lífeyrissjóðnum Stapa og að félagið hafi ávallt átt fulltrúa í aðalstjórn sjóðsins, og hefur það verið formaður félagsins. „Mjög erfitt er að fá fólk til að gegna þessum störfum, þar sem leyfi þarf frá Fjármálaeftirlitinu til að taka sæti í stjórn eða varastjórn. Því miður virðist það vera stefna stjórnvalda að hinn almenni sjóðsfélagi hafi enga möguleika á því að geta tekið þetta að sér og hafa margir launþegar verið dæmdir óhæfir til setu í stjórn sjóðanna, að því er sýnist, vegna þess að þeir hafa ekki háskólapróf í „peningafræðum“. Við auglýstum eftir varamanni í stjórn Stapa frá félaginu og þrátt fyrir að margir hafa talað um að það sé ekki mikið mál að sinna þessu þá var engin biðröð eftir þessu sæti. Ef stjórnvöld halda að það sé nóg að hafa háskólagráðu til þess að geta verið stjórnarmaður eða varamaður í lífeyrissjóði, þá kom það nú berlega í ljós í hruninu að minnsta tapið var aldeilis ekki þar sem menntunin var mest. Eða haldið þið að það hafi vantað menntun hjá því fólki sem sat í bankaráðum og stjórnum fyrir hrun, ég bara spyr?
Í lok árs 2013 voru 203 félagsmenn Einingar-Iðju á atvinnuleysisskrá, þ.e.a.s. þeir sem létu draga félagsgjöld af atvinnuleysisbótunum. Því miður er alltaf eitthvað um að fólk láti ekki draga af sér slík gjöld og tapi þar með réttindum hjá félaginu. Þetta er fækkun um 124 frá árinu á undan.“
Björn sagði að mikið álagið hefði verið á skrifstofur félagsins á síðasta ári. Starfsmenn fá margar spurningar varðandi kaup og kjör, en slíkum fyrirspurnum hefur fjölgað mjög undanfarin ár. „Rúmlega 20.000 símhringar komu inn á skrifstofur félagsins og í gsm síma formanns síðastliðna 12 mánuði eða um 1.735 á mánuði. Það eru um 80 símtöl að meðaltali á dag, alla virka daga sem opið er,“ sagði Björn og bætti við að mikið hefur mætt á lögfræðingum félagsins bæði varðandi launakröfur, gjaldþrot og aðstoð við starfsmenn félagsins við að túlka samninga. „Vert er að minna á að félagið er með samning við PACTA lögmenn um að félagsmenn sem leita til þeirra án þess að félagið hafi milligöngu þar um, skuli fá 15% afslátt af gildandi gjaldskrá PACTA á hverjum tíma.
Sjálfkjörið í stjórn og trúnaðarráð
Sjálfkjörið var í stjórn og trúnaðarráð félagsins þar sem aðeins einn listi barst með tilnefningum. Stjórn
Einingar-Iðju skipa nú: Björn Snæbjörnsson formaður, Anna Júlíusdóttir varaformaður, Halldóra H. Höskuldsdóttir ritari og
síðan svæðisfulltrúarnir fimm, þau Guðrún Þorbjarnardóttir, Sigríður Þ. Jósepsdóttir, Hafdís
Kristjánsdóttir, Margrét Jónsdóttir og Róbert Þorsteinsson, og formenn deildanna þriggja, þau Sigríður K. Bjarkadóttir,
Ingvar Kristjánsson og Margrét H. Marvinsdóttir.
Hér má nálgast ársskýrsluna í heild sinni, sem inniheldur skýrslu stjórnar sem og ársreikning félagsins.