Mikill áhugi er meðal félagsmanna aðildarfélaga BSRB og Alþýðusambands Íslands á íbúðum sem Bjarg íbúðafélag mun leigja tekjulágu fólki á vinnumarkaði. Í lok júlí höfðu alls 818 umsóknir borist félaginu, þar af 56 frá Akureyri og nágrenni.
Skráning á biðlista hófst þann 15. maí. Allar umsóknir sem bárust fyrir lok júlí voru settar í pott og dregið um röð þeirra á biðlista. Þetta var gert til að gæta jafnræðis þar sem reiknað var með að einhvern tíma myndi taka að koma upplýsingum um að opnað hefði verið fyrir umsóknir til félaga í aðildarfélögum BSRB og ASÍ.
Nú hefur verið dregið um röð umsækjendanna 818 á biðlistanum og geta þeir sem sóttu um séð hvar þeir standa með því að fara inn á vef Bjargs og skoða „mínar síður“. Ein númeraröð er fyrir alla óháð íbúðartegund eða staðsetningu. Áfram er hægt að skrá sig á biðlistann og er skráningum raðað upp í þeirri röð sem þær berast og virkjast þegar greiðsla staðfestingargjalds hefur verið innt af hendi.
Í hvert sinn sem íbúðir eru lausar til umsókna sendir Bjarg póst á alla aðila á biðlista með nánari upplýsingum. Ef einstaklingur sem er á biðlista hefur áhuga á tiltekinni staðsetningu þarf að senda umsókn. Úthlutun hlýtur sá umsækjandi sem uppfyllir öll skilyrði um úthlutun hefur lægsta númer á biðlista, að teknu tilliti til forgangs. Sótt er um ákveðna íbúðartegund eða íbúðarstærð sem hentar út frá fjölskyldustærð og í tilteknu húsi. Ekki er hægt að sækja um ákveðnar íbúðir sérstaklega.
Bjarg hefur þegar hafið framkvæmdir við uppbyggingu íbúðakjarna á tveimur stöðum innan Reykjavíkur, í Spöng í Grafarvogi og í Úlfarsárdal. Öll vinna er á áætlun og er reiknað er með þeir sem eru á biðlista geti sótt um fyrstu íbúðirnar á höfuðborgarsvæðinu í september næstkomandi. Afhending íbúða til leigutaka gæti hafist 1. júlí 2019.
Fleiri framkvæmdir eru í undirbúningi hjá félaginu víða um land, og eru alls 815 íbúðir annað hvort á undirbúnings- eða framkvæmdastigi. Hér að neðan er hægt er að sjá stöðuna á uppbyggingu félagsins eins og hún stendur í dag:
Allar nánari upplýsingar má nálgast á vef Bjargs íbúðafélags.
Fréttin er af vef BSRB.