Á annað hundrað félagsmenn á fundi á Dalvík

Frábær mæting var á tvo félagsfundi sem Eining-Iðja hélt í Hrísey og á Dalvík í gær. Fundirnir voru fyrir þá sem starfa á almenna vinnumarkaðnum, þ.e. eftir kjarasamningi SGS við SA. Sérstaklega var góð mæting á Dalvík, þar sem á annað hundrað félagsmenn mættu og muna elstu menn ekki eftir slíkri mætingu á félagsfund á Dalvík. 

Á fundunum sagði Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, frá stöðunni sem upp er komin í samningaviðræðum við Samtök atvinnulífsins en öllum kröfum félagsmanna hefur verið hafnað. Hann fjallaði einnig um rafræna atkvæðagreiðslu um verkfallsheimild sem hófst í gær og stendur yfir til miðnættis mánudagsins 30. mars nk.

Björn sagði eftir seinni fundinn, sem fram fór á Dalvík, að stemningin á fundunum og mætingin hefði verið frábær og gæfi aukinn kraft í áframhaldandi baráttu. „Ég hef aldrei setið félagsfund á Dalvík þar sem mætingin hefur verið eitthvað þessu lík og það þrátt fyrir skítaveður, norðangarra og snjókomu. Ég hef sagt að samstaða sé okkar beittasta vopn og hvatt alla sem eru með atkvæðisrétt til að kjósa, því fyrir samninganefndina er nauðsynlegt að baklandið sé traust. Ef þátttaka í kosningunni verður eitthvað í líkingu við mætinguna á Dalvík og kraftinn í fundargestum þá erum við í góðum málum.“

Myndband af fundinum má sjá hér 

Tveir fundir í dag í Fjallabyggð - ALLIR AÐ MÆTA
Í dag heldur félagið tvo félagsfundi í Fjallabyggð. Sá fyrri verður kl. 18:00 í Tjarnarborg á Ólafsfirði og sá seinni kl. 20:00 í sal félagsins Eyrargötu 24b á Siglufirði. Fundirnir verða túlkaðir yfir á ensku og pólsku. „Kæru félagar – valdið er ykkar! Við hvetjum alla félagsmenn sem starfa á almenna vinnumarkaðnum til að mæta á félagsfundina og jafnframt taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Launafólk í landinu þarf á þínum kröftum að halda. Sýnum ábyrga afstöðu! Mætum og kynnum okkur stöðuna áður en við greiðum atkvæði.“

 

Skrifstofur Einingar-Iðju opnar lengur
Eins og fyrr segir verður kosið með rafrænum hætti. Skrifstofur Einingar-Iðju verða því opnar lengur en venjulega, þar sem veittar verða upplýsingar um atkvæðagreiðsluna og fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir. Þeir félagsmenn sem hafa ekki aðgang að tölvu geta komið og kosið á skrifstofunum. Skrifstofurnar verða opnar eins og hér segir:

  • Akureyri til kl. 20:00 – 23. til 26. mars og 30. mars.
  • Dalvík til kl. 18:00 - 23. til 26. mars og 30. mars.
  • Fjallabyggð til kl. 18:00 - 24. til 26. mars og 30. mars.
  • Allir staðir - Laugardagur 28. mars milli kl. 13 og 17.