Samkvæmt Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru 86,4% launafólks, eða 134.200 manns, aðilar að stéttarfélagi árið 2014. Um 8% sögðust ekki vera aðilar að stéttarfélagi og 5,6% tóku ekki afstöðu eða vissu ekki hvort þeir væru aðilar að stéttarfélagi.
Þegar litið er til aldurs þá eru 89,2% launafólks á aldrinum 25 til 54 ára aðilar að stéttarfélögum og 90,3% 55 til 74 ára. Þátttakan er hins vegar mun lægri hjá launafólki í yngsta aldurshópnum, 16 til 24 ára, en þar segjast 72% vera aðilar að stéttarfélögum, um 10% segjast ekki vera í stéttarfélögum og 18% tóku ekki afstöðu eða vissu ekki hvort þeir væru aðilar að stéttarfélagi.
Þátttaka í stéttarfélögum var hlutfallslega meiri meðal kvenna en karla, en 90,9% kvenna voru aðilar að stéttarfélögum á móti 81,7% karla.
Þess má geta að 56,4% þeirra sem voru í stéttarfélagi árið 2014 voru félagsmenn í aðildarfélögum ASÍ. Næst stærst er Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, BSRB, með 14,7%, þar á eftir kemur Bandalag háskólamanna, BHM, með um 8,1% og Kennarasamband Íslands, KÍ, með 7,6%.
Heimild: Hagstofa Íslands