8. mars alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Myndin er af vef ASÍ
Myndin er af vef ASÍ

Þann 8. mars á ári hverju taka konur sig saman víða um heim og fagna félagslegum, efnahagslegum, menningarlegum og pólitískum afrekum kvenna og minna jafnframt á að ennþá er verk að vinna í jafnréttisbaráttunni.

Á heimasíðu ASÍ segir að hér á landi er boðað til fundar bæði í Reykjavík og á Akureyri. Í Reykjavík verður haldinn hádegisfundur á Grand hóteli, undir yfirskriftinni „Öll störf eru kvennastörf! – Brjótum upp kynbundið náms- og starfsval.“ Þar mun hópur kvenna sem valið hafa starfsvettvang innan  „karllægra“ starfsgreina, deila reynslu sinni og framtíðarsýn. Að fundinum standa samtök launafólks, KRFÍ og Jafnréttisstofa.

Á Akureyri verður í anddyri Borga hádegisfundur þar sem fjallað er um líðan ungs fólks. Þrjú erindi verða haldin og að þeim fundi stendur Zontaklúbbur Akureyrar og Jafnréttisstofa.

Af hverju alþjóðlegur baráttudagur kvenna?

Hugmyndina að sérstökum baráttudegi kvenna kom fyrst upp á fundi Alþjóðasamtaka sósíalískra kvenna sem haldinn var í Kaupmannahöfn árið 1910. Ákveðin dagsetning var ekki fastsett, en mikilvæt að velja sunnudag í mars, þar sem sunnudagur var eini frídagur verkakvenna í þá daga. Fyrstu árin voru baráttumál kvennadagsins kosningaréttur kvenna og samstaða verkakvenna. Árið 1921 ákvað Alþjóðasamband kommúnista að samþykka tillögu Clöru Zetkin, þýskrar kvenréttindakonu og sósíalista, að 8. mars yrði baráttudagur kvenna. Þessi dagsetning tengdist verkfalli kvenna í Pétursborg, en þær kröfðust betri kjara og friðar. Allir pólitískir leiðtogar lögðust gegn verkfallinu en konurnar héldu sínu striki. Fjórum dögum síðar sagði keisarinn af sér og bráðabirgðastjórn veitti konum kosningarétt. Rússneska byltingin var hafin.

8. mars á Íslandi

Hér á landi var dagsins sennilega fyrst minnst á árshátíð Kvenfélags sósíalistaflokksins 8. mars 1948, en félagið var stofnað árið 1939. Þar flutti Dýrleif Árnadóttir ræðu um 8. mars og baráttu kvenna gegn stríði og fasisma og Petrína Jakobsdóttir flutti erindi um Alþjóðasamband lýðræðissinnaðra kvenna og baráttu þess gegn stríði og fasisma. Ljóð voru flutt og Guðmunda Elíasdóttir söng við undirleik Fritz Weishappels. Kaffi var drukkið og dans stiginn.

Í upphafi var áhersla á friðarmál. Á fundum, 8. mars 1951 og 1952 voru samþykktar ályktanir um að Ísland gengi úr Atlantshafsbandalaginu, en þeir fundir voru á vegum Kvenfélags Sósíalistaflokksins.  Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna, MFÍK, voru stofnuð árið 1951. MFÍK hafa frá árinu 1953 staðið fyrir opnum fundum þar sem baráttan gegn bandarísku herstöðinni og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu var fyrirferðarmikil í dagskránni lengi vel, enda samtökin stofnuð til að berjast fyrir friði í heiminum. Á 8. áratugnum fór áherslan að vera meiri á kjör verkakvenna og launamun kynjanna í íslensku samfélagi. Til að leggja áherslur á mismunandi kjör kvenna og karla, þá má segja frá því að árið 1984 efndu Kvennalistakonur í Reykjavík til aðgerða fyrir utan matvöruverslun í Austurstræti og vildu borga 2/3 af uppsettu verði matvara sem þær keyptu.

Á heimasíðu Kvennasögusafnsins er að finna meiri fróðleik um sögu 8. mars, en ofangreind samantekt byggir á gögnum safnsins.

Alþýðusamband Íslands hafði frá árinu 1984 komið að undirbúningi funda MFÍK en ákvað í kringum síðustu aldamót að standa að hádegisfundi í samstarfi við önnur samtök launafólks þar sem sérstök áhersla væri á stöðu kvenna á vinnumarkaði á hverjum tíma. Frá árinu 2002 hafa slíkir fundir verið haldnir í samstarfi við önnur heildarsamtök launafólks, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráð.