7. þing SGS sett - ræða formanns

Setningarræða Björns Snæbjörnssonar, formanns SGS og Einingar-Iðju, á 7. þingi SGS

Félagsmálaráðherra, forseti Alþýðusambands Íslands, kæru félagar!

Velkomin á 7. þing Starfsgreinasambands Íslands, sem að þessu sinni er haldið í Reykjavík, hérna á Hotel Natura. Dagskrá þessa tveggja daga þings er metnaðarfull og ég er þess fullviss að þingið verður starfsamt, rétt eins og fyrri þing. 

Tíminn er fljótur að líða og landslag vinnumarkaðarins tekur örum breytingum.

Síðasta þing Starfsgreinasambandsins var haldið tveimur vikum fyrir Alþingiskosningar.

Undirbúningur nýrra kjarasamninga var þá ofarlega á blaði. Núna er staðan sú að stórir almennir kjarasamningar hafa verið undirritaðir og ný ríkisstjórn hefur tekið við stjórnartaumunum.

Meginhlutverk Starfsgreinasambands Íslands er að sameina verkalýðsfélög í baráttunni fyrir bættum kjörum, standa vörð um áunnin réttindi, vera leiðandi afl innan verkalýðshreyfingarinnar og síðast en ekki síst að vera vettvangur umræðu um þróun samfélagsins í þágu launafólks.

Að þessum markmiðum þurfum við að vinna sem einn maður. Þing Starfsgreinasambandsins er mikilvægur vettvangur í þessum efnum. Við skulum þess vegna leggja okkur fram og nýta tímann vel, þannig að árangurinn verði sem mestur og bestur.

Hlutverk okkar og ábyrgð eru mikil.

 

Góðir félagar !

Við stöndum á tímamótum. Svokölluð fjórða iðnbylting er hafin, og mun hún hafa ýmsar samfélagslegar breytingar í för með sér.

Stórtækar tæknibreytingar eru að eiga sér stað, sem hafa óhjákvæmilega áhrif á vinnumarkaðinn.

Verkalýðshreyfingin verður að horfast í augu við þennan veruleika, enda munu allar þessar breytingar til aukinnar sjálfvirkni og tækninýjunga hafa mikil áhrif á okkar daglega líf.

Við þurfum að leggjast sameiginlega á árarnar, þannig að öllum verði gert kleift að sinna ólíkum störfum.

Fyrr á þessu ári skilaði nefnd á vegum forsætisráðherra ítarlegri skýrslu um fjórðu iðnbyltinguna.

Niðurstaða nefndarinnar er að miklar líkur séu á að tæplega 30% íslensks vinnnuafls verði að takast á við verulegar breytingar á störfum sínum, eða að störf hverfi alveg vegna sjálfvirknivæðingar. Þetta eru hátt í 60 þúsund einstaklingar á vinnumarkaði.

Einnig er því  spáð að tæplega 60% starfa taki talsverðum breytingum, það er að segja um það bil 113 þúsund manns.

Við stöndum því frammi fyrir miklum áskorunum og verkalýðshreyfingin verður að vera virk í þessum efnum.

Nefnd forsætisráðherra segir í niðurstöðum sínum að hröð tækniþróun „skapi oft togstreitu milli siðferðilegra verðmæta og þess ábata sem við teljum að tæknin færi okkur.“

Þannig geti upplýsingaöflun og hagnýting ógnað frelsi og sjálfstæði fólks.

Verkalýðshreyfingin getur ekki - og má ekki - bara horfa á og fylgjast með þróuninni – við verðum að taka þátt og hafa áhrif.

Augljóst er að velferðarkerfið gegnir mikilvægu hlutverki við að styðja fólk í gegnum þær breytingar sem verða af völdum nýrrar tækni, krafan er því að stjórnvöld og atvinnulífið setji aukna fjármuni í símenntun, fullorðinsfræðslu og fleira til þess að mæta þessum öru tæknibreytingum.  

Ágætu þingfulltrúar !

Undirbúningur verkalýðshreyfingarinnar að gerð Lífskjarasamningsins var á margan hátt hnitmiðaðri en áður, félögin virkjuðu grasrótina betur og vinnubrögðin voru agaðri og markvissari á flestum sviðum.

Öll aðildarfélögin sem mynda Starfsgreinasambandið stóðu að sameiginlegri kröfugerð, lokapunkturinn var settur í kröfugerðina á Selfossi, einmitt þar sem síðasta þing Starfsgreinasambandsins var haldið.

Lengi vel var algjör samstaða meðal félaganna í viðræðunum við Samtök atvinnulífsins. Þó kom upp áherslumunur, þannig að hópurinn skiptist.

Allan tímann var þó unnið með sömu kröfugerðina og félögin skrifuðu í lokin undir sama kjarasamninginn. – Það er ekkert við því að segja þótt áherslurnar í viðræðunum hafi ekki verið nákvæmlega þær sömu.

Það sem mestu máli skiptir, kröfurnar voru þær sömu, félögin unnu saman af heilum hug, og að lokum var sami kjarasamningurinn undirritaður.

Gleymum því ekki.

Að mínu mati náðum við fram mörgum góðum málum í þennan samning, sem er auðvitað aðal málið.

Eins og svo oft áður, reyndu atvinnurekendur ítrekað að kljúfa raðir okkar, en ég segi hiklaust að samstaða okkar skilaði árangri og ég vil nota þennan vettvang til þess að þakka öllum félögunum fyrir góða og einarða samstöðu, sem er okkar beittasta vopn í kjarabaráttunni.  

Það er hins vegar ekki nóg að aðilar vinnumarkaðarins skrifi undir samninga!

Aðkoma ríkisstjórnarinnar að samningaborðinu var mikilvæg. Reyndar er það svo að hið opinbera hefur alltaf komið að samningamamálum með einum eða öðrum hætti, en samráðið að þessu sinni var mun markvissara.

Fyrirheit voru gefin og sett á blað. Verkalýðshreyfingin mun fylgja því fast eftir að ríkisstjórnin standi við gefin loforð, við munum ekki sætta okkur við annað en að boðaðar aðgerðir komi til framkvæmda sem allra fyrst. Ég nefni sérstaklega fjóra þætti í þessum efnum, þótt vissulega séu þeir fleiri;

Skattamál, brotastarfsemi á vinnumarkaði, húsnæðismál og vaxtamál.

Í skattamálum viljum við þriggja þrepa skattkerfi með nýju lágtekjuþrepi, og miðað er við að sú aðgerð auki ráðstöfunartekjur tekjulægsta hópsins um tíu þúsund krónur á mánuði. – Þetta eru miklir fjármunir; 120 þúsund krónur á ári í auknar ráðstöfunartekjur. Það munar sannarlega um minna fyrir tekjulægsta hópinn, sem er stór.

Þá nefni ég líka sérstaklega að skattleysismörkin haldast föst að raunvirði, þannig að persónuafsláttur og skattþrep hækka umfram verðbólgu sem nemur framleiðni-aukningu.

Eins og stefnan í skattamálum virðist vera í dag er einna helst lögð áhersla á breytingar sem koma fjármagnseigendum til góða, svo sem lækkun á  fjármagnstekjuskatti og erfðafjárskatti.

Verkalýðshreyfingin getur ekki sætt sig við slíka  forgangsröðun, þetta er ekki stefnan sem um var talað í tengslum við gerð Lífskjarasamninganna. – Það er af og frá og við munum fylgja efndum um skattamál fast eftir.

Skattar og opinberar álögur eru skilvirk jöfnunartæki, gleymum því ekki.

Launafólk hefur axlað sína ábyrgð með því að samþykkja samning sem stuðlar að stöðugleika.

Núna er komið að stjórnvöldum að axla sína ábyrgð.

Já, sannarlega er röðin komin að stjórnvöldum !

Engum blöðum er um það að fletta að hagvöxturinn hér á landi er að stórum hluta drifinn áfram af erlendu launafólki og sömuleiðis unga fólkinu sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum.

Við höfum orðið vitni að átakanlegum og raunverulegum dæmum um brotastarfsemi. Svo sem greidd laun langt undir kjarasamningum. Lítilsvirðingin virðist oft á tíðum alger og vinnumansal er ömurleg staðreynd. Undirboð, þrælahald og skattsvik hafa grafið um sig á íslenskum vinnumarkaði, svo ekki verður um villst.

Við þekkjum mörg dæmi þess að fólki er hreinlega bannað að leita sér upplýsinga um réttindi sín hjá verkalýðshreyfingunni og bent á að þeir sem það geri, eigi á hættu að missa vinnu og húsnæði. Við erlent starfsfólk er jafnvel sagt að ekkert mál sé að flytja inn meðfærilegri starfsmenn.

Gleymum því ekki að flestir koma hingað til landsins í góðri trú.

Vaxandi þáttur í starfsemi verkalýðshreyfingarinnar er að aðstoða og leiðbeina erlendu starfsfólki og beita sér fyrir ýmsum réttarbótum, svo sem löggjöf um keðjuábyrgð.

Herferðin EINN RÉTTUR – EKKERT SVINDL, gaf góða raun, en við þurfum að halda áfram, markmiðið er að uppræta þessa meinsemd, undirboð og svarta atvinnustarfsemi.

Verkalýðshreyfingin hefur ávallt lagt ríka áherslu á húsnæðismál, haft frumkvæði að mótun og endurreisn félagslegs leiguíbúðakerfis og beitt sér fyrir því að byggt verði upp varanlegt og traust kerfi.

Í nýafstöðnum kjaraviðræðum náðist mikilvægur áfangi í þessum efnum, meðal helstu atriða í innleggi ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana er einmitt aukið fjármagn til húsnæðismála.

Sérstaklega er tekið fram að unnið verði með aðilum vinnumarkaðarins að leiðum til að auðvelda ungu fólki sín fyrstu kaup, auk þess sem núverandi nýting til séreignarsparnaðar verði framlengd.

Húsnæðisvandi þeirra tekjulægstu er gríðarlegur og hið opinbera verður að styðja við fólk sem vill eignast húsnæði og sömuleiðis er brýnt  að stórbæta stöðu þeirra sem eru á leigumarkaðnum.

Stofnun Bjargs íbúaðafélags var stórt skref í þessum efnum, en eins og við vitum, er félaginu ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu á hagstæðu verði.

Ráðherra húsnæðismála er hérna við setningu þingsins og brýni ég hann til að vinna hratt og sköruglega að þessum loforðum ríkisstjórnarinnar.

Seðlabankinn hefur lækkað stýrivexti umtalsvert á undanförnum mánuðum, lækkunin er 1,25 prósentustig frá því kjarasamningarnir voru undirritaðir þann 1. apríl.

Við vitum öll hversu háir vextirnir hafa verið hér á landi og hversu hátt vaxtastig hefur leikið heimilin í landinu grátt og sömuleiðis atvinnulífið.

Eitt stærsta málið í lífskjarasamningnum er einmitt lækkun vaxta.

En það er engan veginn nóg að Seðlabankinn lækki stýrivexti, krafan er að bankakerfið – viðskiptabankarnir - skili lækkuninni til almennings, til fólksins í landinu.

Staðreyndin er nefnilega sú að lækkun stýrivaxtanna hefur ekki skilað sér alla leið, lækkun vaxta hjá viðskiptabönkunum er sára lítil.

Verkalýðshreyfingin fylgist auðvitað vel með þróuninni, lækki viðskiptabankarnir ekki vextina, kallar slíkt á hörð viðbrögð.

Þótt viðskiptabankarnir teljist vera sjálfstæðir í sínum rekstri, er ábyrgð ríkisins mikil, sem eiganda stórra banka.

Ríkið getur aldri sagst vera stikkfrí í þessum efnum.

Snúum okkur næst að öðrum stórum málum, velferðarmálum!

„Heilbrigði fyrir alla“ verður sérstaklega rædd á þinginu síðar í dag.

Einn fjárfrekasti útgjaldaliður ríkissjóðs er heilbrigðiskerfið og aðgangur að heilbrigðisþjónustu er einn af lykilþáttum þess að tryggja búsetu um land allt. Vissulega breytist tæknin í heilbrigðismálum og varla er hægt að fara fram á að öll þjónusta sé til staðar á öllum stöðum.   Fjarri því.

Fyrr á þessu ári fjallaði - og ályktaði formannafundur Starfsgreinasambandsins um heilbrigðismál. 

Þar er bent á að verulega hafi verið dregið úr þjónustu við þá sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, sérstaklega á landsbyggðinni, sem oft þurfa að ferðast um langan veg með tilheyrandi kostnaði og tekjutapi.

Af störfum mínum norður í Eyjafirði,  þekki ég hversu algengt það er að fólk hreinlega neitar sér um að sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, kostnaðarins vegna. Sömu sögu er að segja varðandi aðra landshluta.

Greiðsluþátttökukerfið tekur afar takmarkað tillit til ferða- og dvalarkostnaðar fólks af landsbyggðinni. – „Þetta er til skammar fyrir íslenskt samfélag og er algerlega óásættanlegt,“ segir í ályktun formannafundarins, sem krefst þess að þegar verði gripið til aðgerða til að tryggja jafnt aðgengi landsmanna að allri heilbrigðisþjónustu.

Ef við viljum byggja landið allt, verður heilbrigðisþjónustan að vera öflugri utan höfuðborgarsvæðisins, en nú er.

Kæru félagar !

Þótt að mestu hafi verið samið á almennum vinnumarkaði, er staðan sú að víða á eftir að semja, meðal annars við ríki og sveitarfélög og þar er staðan alvarleg, svo ekki sé meira sagt.

Ósveigjanleiki, stífni og jafnvel hroki eru áberandi hjá samninganefnd sveitarfélaganna, og ég get sagt ykkur það að ef ekkert fer að ganga við samningaborðið, þá er ekkert annað að gera en að skella í lás hjá ýmsum stofnunnum sveitarfélaga á næstunni. Það er bara þannig.

 Mælirinn er fullur !!!!

Staðan er einfaldlega sú að miðstýrð samninganefnd sveitarfélaga neitar fólki með lökustu lífeyrisréttindin að jafna þau við aðra opinbera starfsmenn. Þessi afstaða er með ólíkindum og er sveitarfélögunum til háborinnar skammar.

Það hefur mikið gengið á og þetta segir sá sem ýmsa fjöruna hefur sopið í samningamálum. Samninganefnd sveitarfélaganna virðist einbeitt í afstöðu sinni og okkar í verkalýðshreyfingunni bíður fátt annað en að grípa til róttækra aðgerða. – Við þetta ástand verður ekki unað öllu lengur.

Andinn í viðræðunum við samninganefnd ríkisins hefur verið með nokkuð öðrum hætti. Þar er stytting vinnutímans mjög í deiglunni og þar ráða opinberu stéttarfélögin í raun ferðinni. Við í Starfsgreinasambandinu fylgjumst vel með gangi mála.

Það er ólíðandi og óþolandi að ekki sé búið að ganga frá samningum við Ríki og sveitarfélög, gleymum því ekki að samningar runnu út 1. apríl. Það eru með öðrum orðum liðnir nærri því sjö mánuðir frá því samningar runnu út.

Ég treysti því að hæstvirtur félagsmálaráðherra fari með þessi skilaboð áleiðis.

Henný Hinz  aðalhagfræðingur Alþýðusambands Íslands mun á eftir fara yfir þróum og horfur í kjaramálum.

Góðir þingfulltrúar !

Ábyrgð okkar sem erum fulltrúar vinnandi fólks er mikil. Það er ekki aðeins vinnumarkaðurinn sem tekur breytingum, skipulag verkalýðshreyfingarinnar á og verður að vera í sífelldri endurskoðun.

Sterk og öflug verkalýðshreyfing er einn af hornsteinum samfélagsins og sá lagarammi sem hreyfingunni er skapaður til þess að starfa eftir. Hlutverk okkar er fyrst og fremst að veita góða þjónustu, vera tilbúin til að taka framtíðar-áskorunum og sjá til þess leikreglur vinnumarkaðarins séu virtar.

Skipulag og uppbygging verkalýðshreyfingarinnar má ekki verða „fjötur um fót“ í þessum verkefnum.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að uppstokkun hefur orðið í mörgum verkalýðsfélögum á undanförnum misserum,  nýtt fólk hefur tekið við forystunni, með áherslubreytingum sem nýju fólki fylgja.

Auðvitað á það að vera þannig að lýðræðisleg endurnýjun sé sjálfsögð. Og það sem meira er, hún er nauðsynleg.  

Núna er mjög talað um að sameina sveitarfélög og ekki er ólíklegt að það takist á næstu árum. Meðal annars er talað um mikilvægi þess að sameina, vegna þess að verkefni sveitarfélaganna eru að verða stærri og um margt flóknari úrlausnar.

Á margan hátt er staðan svipuð á okkar vettvangi, verkalýðshreyfingunni.

Starfsemin tekur breytingum í áranna rás, og verkefnin verða flóknari. Við þekkjum þetta vel.

Við skulum hiklaust að taka umræðuna um að sameina félög eða efla samstarfið til mikilla muna.

Lykilstefið er að þjónustan við félagsmenn verði efst á blaði, ásamt auknum slagkrafti við samningaborðið.

Þetta er stórmál og af samtölum mínum við forystufólk innan verkalýðshreyfingarinnar er greinilegt að ákall er um aukið samstarf á milli stéttarfélaga. Umræðan um sameiningu er sömuleiðis þyngri og ákveðnari.

Við heyrum oft að stéttarfélög séu í rauninni óþörf.

Þetta er lævís áróður, sem á sér enga stoð í raunveruleikanum.

Allar tölur sýna svart á hvítu að málum sem berast á borð verkalýðshreyfingarinnar fjölgar ár frá ári og tilkynningar um alvarleg brot á vinnumarkaði verða æ algengari.

Og ég spyr: Er engin þörf fyrir hagsmunagæslu verkafólks í þannig umhverfi?

Mér dettur ekki annað í hug en að þessi áróður haldi áfram, en þá er það einfaldlega okkar að svara af festu og einurð.

Því öflugri sem verkalýðshreyfingin er, því betur tryggjum við sjónarmið og hagsmuni launafólks. Þannig stuðlum við að lýðræðislegri þróun samfélagsins, bættum lífskjörum allra og jafnrétti.

Nei, góðir félagar, stéttarfélög eru ekki óþörf. Langt í frá.

Hins vegar skulum við hafa það hugfast að lykillinn að öflugu starfi, er að verkalýðshreyfingin verði alltaf í mótun og svari kalli tímans.

Og það skulum við gera, meðal annars með því að ræða opinskátt um sameiningu og stóraukna samvinnu.

Góðir félagar !

Starfsemi Starfsgreinasambands Íslands er á margan hátt öflug, en við verðum fyrst og fremst að hugsa hlutina þannig að alltaf megi gera betur!

Sjálfs-gagnrýni er nauðsynleg, með það að leiðarljósi að gera verkalýðshreyfinguna sem öflugasta.

Seinnipart síðasta árs lét Drífa Snædal framkvæmdastjóri af störfum, eftir að hafa verið kjörin í embætti forseta Alþýðusambands Íslands. Ég vil við þetta tækifæri þakka Drífu fyrir afskaplega gott og farsælt samstarf, um leið og ég – fyrir hönd okkar sem myndum Starfsgreinasamband Íslands – óska henni velfarnaðar í störfum sínum fyrir heildarsamtökin okkar.

Flosi Eiríksson var í kjölfarið ráðinn framkvæmdastjóri sambandsins, ráðningaferlið var í höndum Capacent. Alls bárust sautján umsóknir um stöðuna.

Flosi hefur víðtæka reynslu, sem nýtast mun Starfsgreinasambandinu vel. Fyrir hönd okkar allra býð ég hann velkominn til starfa.

Flosi mun síðar í dag flytja skýrslu um störf sambandsins frá síðasta þingi.

Ágætu fulltrúar á sjöunda þingi Starfsgreinasambandsins

Ég hlakka til að vinna að málefnum Starfsgreinasambands Íslands næstu tvo dagana. Dagskráin er þétt, viðfangsefnin eru mörg og krefjandi.

Ég er þess fullviss að við eflum og styrkjum innviði sambandsins hérna á þinginu,  nýjar áskoranir bíða okkar og þeim mætum við með því að læra af reynslunni og síðast en ekki síst að hlusta á sjónarmið hvers annars.

Samstíga og vel skipulögð verkalýðshreyfing er lykillinn að því að ná settu marki.

Ég hlakka til að taka þátt í þessu þingi með ykkur, og taka þátt í umræðunni og skoðanaskiptunum. Það mun styrkja okkur.

Og ekki má gleyma þingveislunni í kvöld, þar sem vinabönd verða treyst enn frekar og stofnað til nýrra.

Ég segi sjöunda þing Starfsgreinasambands Íslands sett.