Fyrr í dag setti Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju og SGS, sjötta þing Starfsgreinasambands Íslands sem að þessu sinni fer fram á Selfossi. 135 þingfulltrúar frá 19 aðildarfélögum eiga rétt á að sitja þingið, þar af koma 11 frá Einingu-Iðju. Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, fluttu ávörp við upphaf þingsins.
Björn sagði m.a. í setningarræðu sinni að þingið að þessu sinni væri haldið rúmlega tveimur vikum fyrir Alþingiskosningar. "Við þurfum að koma ýmsu á framfæri við það fólk sem gefur kost á sér til að starfa sem þingmenn og ráðherrar næstu árin. Efling eftirlitsstofnana er þar efst á blaði. Vinnumálastofnun, Vinnueftirlitið og Skatturinn þurfa að vera vandanum vaxin og leggjast á árarnar með okkur til að bæta vinnumarkaðinn. Lög um keðjuábyrgð eru líka nauðsynleg í baráttunni gegn félagslegum undirboðum og ættu að gilda um allan vinnumarkaðinn. Þá gengur ekki lengur að ekki sé nein aðgerðaráætlun gegn mansali í gildi og fá úrræði til staðar þegar við sjáum verstu birtingamyndir misnotkunar á vinnuafli. Þessi verkefni eru stór og brýn og við skulum halda ábyrgð ríkisins til haga það sem eftir er kosningabaráttunnar."