Á heimasíðu VIRK kemur fram að í lok árs 2015 voru um 1.900 einstaklingar í starfsendurhæfingarþjónustu á vegum VIRK og að alls hafa rúmlega 9.200 einstaklingar leitað til VIRK frá því að byrjað var að veita þjónustu í lok árs 2009. 5.100 einstaklingar hafa lokið þjónustu, útskrifast, frá VIRK frá upphafi og um 70% þeirra eru virkir á vinnumarkaði við útskrift.
1.790 einstaklingar komu nýir inn í þjónustu hjá VIRK á árinu 2015, svo til sami fjöldi og árið 2014. 1344 einstaklingar luku þjónustu 2015, 26% fleiri en 2014 en þá útskrifuðust 1066 einstaklingar.
Aðsókn að VIRK er að ná jafnvægi eftir mikinn vöxt undanfarin ár sem hefur fylgt mikið uppbyggingar- og þróunarstarf sem skilað hefur sér í m.a. auknu samstarfi við lífeyrissjóði, heilbrigðisstofnanir, félagsþjónustu sveitarfélaga og fleiri aðila. Auk þess hefur verið markvisst unnið að því að skýra og skerpa vinnuferla með það að markmiði sem efla og bæta þjónustu við einstaklingana, gera starfendurhæfingarferlið markvissara og styttra og tryggja hagkvæmni í rekstri VIRK.
Eins og áður segir þá eru um 70% þeirra einstaklinga sem hafa lokið þjónustu hjá VIRK með vinnugetu og fara annað hvort beint í launað starf, virka atvinnuleit eða lánshæft nám. Árangur og ávinningur af starfsemi VIRK - fjárhagslegur og samfélagslegur - er mjög mikill þar sem hún hefur á undanförnum árum skilað þúsundum einstaklinga í virka þátttöku á vinnumarkaði. Þetta hafa utanaðkomandi aðilar staðfest en niðurstöður athugunar Talnakönnunar er að ávinningurinn af starfsemi VIRK á árinu 2014 hafi numið um 11,2 milljarðar króna samanborið við 9,7 milljarða árið 2013. Þá sýna þjónustukannanir VIRK að þátttakendur eru undantekningalítið mjög ánægðir með þjónustuna og telja hana auka verulega bæði lífsgæði sín og vinnugetu.