Á morgun kl. 10:00 verður 42. þing Alþýðusambands Íslands sett. Þingið sem fram fer á Hótel Nordica í Reykjavík mun standa yfir í þrjá daga. Ellefu fulltrúar frá Einingu-Iðju sitja þingið sem ber að þessu sinni yfirskriftina Samstaða í 100 ár - sókn til nýrra sigra!
Á þingið mæta um þrjú hundruð fulltrúar launafólks af öllu landinu til að móta heildarsamtökunum stefnu og starfsáætlun og velja þeim forystu.
Á þinginu verða tillögur að breytingum á lögum ASÍ teknar til umfjöllunar, skýrsla forseta ASÍ verður kynnt, ályktanir samdar, ásamt fleiri dagskrárliðum.
Á þinginu verður málefnavinna unnin í hópum eftir þjóðfundafyrirkomulagi eins og tíðkast hefur á undanförnum þingum Alþýðusambandsins með góðum árangri. Á miðvikudaginn verður rætt um nýtt samningalíkan að Norrænni fyrirmynd og á fimmtudaginn verður fókusinn settur á velferðar- og vinnumarkaðsmál. Á föstudag verður svo kosið í embætti til næstu tveggja ára, þar á meðal forseti ASÍ, varaforsetar og í miðstjórn ASÍ.
Á fimmtudaginn kl. 14 verður efnt til pallborðsumræðna með leiðtogum þeirra sjö stjórnmálaflokka sem líklegastir eru að ná fólki inn á þing eftir kosningarnar um samhengið á milli efnahagslegs- og félagslegs stöðugleika. Þessi umræðu og opnun þingsins á miðvikudag verða sýndar í beinni útsendingu á heimasíðu ASÍ.
Streymi frá opnun 42. þings ASÍ (kl. 10:00-11:15 á miðvikudag)