Fyrr í dag setti Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju og SGS, fjórða þing Starfsgreinasambands Íslands sem að þessu sinni fer fram í HOFI á Akureyri. Um 140 þingfulltrúar frá 19 aðildarfélögum sitja þingið, þar af koma 12 frá Einingu-Iðju. Þingið fer fram undir yfirskriftinni Samstaða og Samvinna, og mun fjalla um kjaramál í aðdraganda kjarasamninga, atvinnumál almennt, húsnæðismál og fleira. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, fluttu ávörp við upphaf þingsins.
Björn sagði m.a. í setningarræðu sinni „að þessu sinni höldum við þing okkar undir slagorðinu „Samstaða og samvinna“ til að minna á mikilvægi þess að við stöndum saman í yfirstandandi kjaraviðræðum. Samstaða og samvinna er einnig hornsteinn Starfsgreinasambandsins, sem er og á að vera, vettvangur sameiginlegrar kjarabaráttu, samtök með meira afli en einstök félög geta haft, til að mynda þann slagkraft sem nauðsynlegur er í baráttu við atvinnurekendur og ríkisvald.“ Setningarræðuna í heild má lesa hér fyrir neðan:
Félags- og húsnæðismálaráðherra, forseti Alþýðusambands Íslands, bæjarstjórinn á Akureyri, þingfulltrúar og gestir.
Velkomin á þing Starfsgreinasambands Íslands, sem nú er haldið hér í höfuðstað Norðurlands. Það er mikil ánægja fyrir okkur hér í Eyjafirði að fá ykkur öll í heimsókn á þennan fallegasta stað á Íslandi, og ég tala nú ekki um að halda þingið í þessu glæsilega Menningarhúsi okkar hér.
Það hefur verið stefna Starfsgreinasambandsins að halda fundi bæði á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu, því sambandið er auðvitað landssamband. Það er líka nauðsynlegt að þeir sem eru að vinna saman geti kynnt sér aðstæður félaga sambandsins á ólíkum svæðum. Ég held að þessi stefna hafi gert okkur hæfari til að takast á við margvísleg sjónarmið, sem koma frá ólíkum stöðum.
Að þessu sinni höldum við þing okkar undir slagorðinu „Samstaða og samvinna“ til að minna á mikilvægi þess að við stöndum saman í yfirstandandi kjaraviðræðum. Samstaða og samvinna er einnig hornsteinn Starfsgreinasambandsins, sem er og á að vera, vettvangur sameiginlegrar kjarabaráttu, samtök með meira afli en einstök félög geta haft, til að mynda þann slagkraft sem nauðsynlegur er í baráttu við atvinnurekendur og ríkisvald.
Starfsgreinasambandið er ekki síður vettvangur samráðs til að miðla upplýsingum á milli félaga og nýta þekkingu og reynslu landshluta á milli, öllum til góða. Stundum hefur blásið hressilega á milli félaga og oft er nauðsynlegt að minna okkur á að það er til mikils að vinna að standa saman jafnt inná við sem út á við. Að hittast á tveggja ára fresti til að móta sameiginlega stefnu er mikilvægt og við skulum nýta tímann vel næstu tvo daga til að sameinast um ályktanir, stefnu og hvaða starf við viljum að Starfsgreinasambandið sinni næstu tvö árin. Það er í okkar höndum.
Fyrir tveimur árum fórum við í gagngera endurskoðun á sambandinu, uppbyggingu þess og innviðum, enda er nauðsynlegt að gera slíkt við og við og gæta þess að staðna aldrei. Þó enn eigi eftir að koma reynsla á hið nýja skipurit að fullu þá lofar það góðu, lýðræðið hefur verið aukið með fjölgun formannafunda og betri miðlun upplýsinga, meðal annars með opnun nýs vefjar. Hið nýja skipulag er þó ekki greipt í stein og það er alltaf tilefni til að endurskoða með það að markmiði að auka samvinnuna og lýðræðið innan sambandsins.
Það er ekki einungis innan sambandsins sem við höfum aukið lýðræði og þjónustu heldur má segja að landslag samtaka almenns launafólks hafi gerbreyst hin síðari ár. Innan Starfsgreinasambandsins eru nú 19 félög en voru þegar sambandið var stofnað 50 talsins. Með sameiningu félaga hefur tekist að búa til öflugri einingar og auka þjónustu við almenna félagsmenn sem er að sjálfsögðu markmiðið. Ef stærri félög geta veitt betri þjónustu þá á að stefna að sameiningu því þjónustan við félagana er það sem skiptir mestu. Þar fer fremst í flokki allt það frábæra starfsfólk sem vinnur á skrifstofum stéttarfélaganna, sem starfar oft við erfiðar aðstæður vegna sívaxandi vandamála hjá fólki sem til okkar leitar.
Við erum stödd í upphafi kjarasamningaviðræðna.Við höfum unnið vel að kröfugerð okkar, lesið yfir alla samningana sameiginlega og gert okkur vel grein fyrir hverju þarf að breyta og hvað þarf að bæta.
Félögin hafa haft misjafnan hátt á að fá fram hugmyndir almennra félaga. Um allt land hafa verið haldnir félags- og trúnaðarmannafundir, gerðar skoðanakannanir, farið í vinnustaðaheimsóknir og öllum ráðum beitt til að gera þetta ferli sem lýðræðislegast og fá fram það sem brennur helst á launþegum. Eftir þessa miklu vinnu geta öll félögin verið sátt, og ég vil nýta tækifærið til að þakka fyrir vel unnin störf síðastliðinn vetur og í haust.
Þau fjölmörgu atriði sem við höfum safnað í sarpinn varða ekki aðeins kaup og kjör heldur aðbúnað á vinnustöðum, stöðu trúnaðarmanna, vaktafyrirkomulag og margt fleira. Þetta mun nýtast okkur næstu árin í kjaraviðræðum.
Samninganefndin hefur unnið ötullega að því að samræma kröfur aðildarfélaganna og eftir vinnufundi okkar er stefnan inn í næstu samningaviðræður orðin skýr. Við viljum semja til skamms tíma, vegna óvissu um hvernig efnahagsmálin munu þróast næstu misseri.
Við vitum ekki í dag hvernig ríkisstjórnin ætlar að taka á skuldamálum heimilanna eða hvaða áhrif þau munu hafa á ráðstöfunartekjur og kaupmátt. Þá á eftir að ganga frá fjárlögunum, en ljóst er að frumvarpið mun taka töluverðum breytingum í meðförum alþingis enda hafa báðir stjórnarflokkarnir lýst því yfir að þar megi ýmislegt bæta.
Við vitum mjög vel að það eru sóknarfæri í ýmsum greinum. Til merkis um það eru ótrúlegar arðgreiðslur útgerðarfyrirtækja, skattalækkanir á ferðaþjónustuna og hagtölur sem sýna góða afkomu útflutningsgreina.
Sókn til bættra kjara á þessum vettvangi er ofarlega á blaði hjá okkur en við horfum að sjálfsögðu fyrst og fremst til hækkunar lægstu launa, enda er það áhrifaríkasta aðgerðin til að jafna laun kvenna og karla og auka jöfnuð í heild sinni.
Varðandi önnur réttindi, þá reisum við enn á ný kröfuna um að styrkja réttindaflutning milli vinnustaða þannig að fólk sem hefur áunnið sér veikindarétt og orlofsrétt, missi hann ekki þegar það skiptir um vinnu.
Þá er okkur umhugað um að veikindarétturinn verði rýmkaður og gerður fjölskylduvænni, til dæmis að unnt sé að nýta hann til að sinna öldruðum foreldrum og eldri börnum.
Það er löngu kominn tími til að jafna lífeyrisréttindin milli almenna markaðarins og hins opinbera, enda er það óþolandi að skattar fólks á hinum almenna vinnumarkaði séu nýttir til að ríkistryggja lífeyri opinbers starfsfólks.
Þarna er aðstöðumunur milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins sem verður að vinda ofan af.
Þá leggjum við áfram mikla áherslu á menntun og fræðslu enda vitum við hversu vel starfsmenntasjóðirnir hafa nýst til að bæta lífsgæði almenns verkafólks.
Með aukinni menntun kemur líka krafan um að vinnumarkaðurinn viðurkenni hana til hærri launa, enda skilar menntun sér í hæfara starfsfólki sem eðlilegt er að fái hærri laun.
Eitt stærsta kjaramálið um þessar mundir er að fólk hafi aðgang að húsnæði á viðráðanlegu verði. Það er orðið ófremdarástand í húsnæðismálum.
Við erum tilbúin í samráð og samstarf við stjórnvöld um húsnæðiskaupa- og leigukerfi á félagslegum grunni enda er þetta einn stærsti útgjaldaliður heimilanna og skiptir miklu fyrir lífsgæði og lífskjör hvernig staðið er að húsnæðismálum.
Verkefni okkar er ekki einungis að sækja fram til bættra lífskjara heldur að verja það sem hefur áunnist í gegnum tíðina. Stór hluti af því að verja kjörin er að gæta þess að allir fari að settum reglum og koma í veg fyrir félagsleg undirboð.
Ein helsta ógnin um þessar mundir er svört atvinnustarfsemi, þar sem fólk er fullkomlega réttindalaust á vinnumarkaðnum, engu er skilað til samfélagsins í formi skatta og unnið er fyrir utan þá ramma sem við í sameiningu höfum sett okkur.
Þessi barátta er eilíf en hún er mikilvæg fyrir okkur öll.
Sérstakt áhyggjuefni núna er ferðaþjónustan sem virðist að einhverjum hluta til starfa utan laga og kjarasamninga og við munum halda áfram að berjast gegn því af fullum þunga til að verja vinnumarkaðinn og launafólk.
Eins og áður er rakið ríkir ákveðið óvissuástand í kjaraviðræðunum. Þó samningar okkar séu við atvinnurekendur þá skiptir það okkar félaga ekki síður máli hvað ríkisstjórnin hyggst gera á komandi vetri.
Fjöldi félaga innan vébanda Starfsgreinasambandsins, sérstaklega konur í umönnunarstörfum, vinnur innan velferðarkerfisins og allir eru notendur þess. Það skiptir verulegu máli fyrir venjulegt launafólk hvað þarf að greiða fyrir grunnþjónustuna og reynslan hefur sýnt að oft er skorið niður í aðstöðu og starfshlutfalli starfsfólks þegar þarf að spara í hinu opinbera.
Niðurskurður í velferðarkerfinu kemur því sérstaklega við okkar fólk og við verðum að fylgjast vel með boðuðum hagræðingaraðgerðum stjórnvalda.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstaklega tekið fram að „unnið verði að víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðar“.
Hvað í þessu felst er alls ekki ljóst enda hefur samráð verið af skornum skammti hingað til.
Við vonum þó að það standi til bóta, enda erum við tilbúin í allt samstarf sem býðst, ef það varðar hag launafólks í landinu.
Þá er einnig tekið fram í stjórnarsáttmálanum að lækkun skatta á tekjur, vörur og þjónustu verði unnin í samráði við aðila vinnumarkaðarins og er það vel, en reynslan af samráðinu við gerð fyrstu fjárlagagerðarinnar var ekki góð, eða réttara sagt „samráð var ekkert“, svo að maður treystir varlega því sem stendur í stjórnarsáttmálanum. Það er ekki til neins að lofa einhverju, ef ekki á að standa við það.
Ef núverandi ríkistjórn meinar eitthvað með því sem stendur í stjórnarsáttmálanum þá ættu þeir að fara eftir því. Við erum ekki svo vitlaus að við skiljum ekki þegar við erum ekki virt viðlits. En ef menn vilja tala við okkur í alvöru þá erum við til í þær viðræður.
Skattkerfið getur verið áhrifaríkt tæki til að jafna kjör í landinu og það er gegnumgangandi í kröfugerðum okkar félaga að persónuafsláttur verði hækkaður og skattprósenta þeirra lægst launuðu þannig í raun lækkuð. Það eru skýr skilaboð frá okkur til stjórnvalda að slíkar aðgerðir myndu liðka fyrir samningum og nýtast okkar fólki best.
Hækkun persónuafsláttar og jöfnun lífeyrisréttinda við opinbera starfsmenn eru þær kröfur sem eru efstar á blaði gagnvart stjórnvöldum.
Lækkun á skattprósentunni í miðþrepinu er jákvætt fyrir suma en hefur ekki áhrif á mikinn fjölda okkar fólks. Þetta er því ekki aðgerð til að létta lífið fyrir almennt launafólk heldur er haldið áfram á þeirri braut sem var vörðuð í sumar, að þeir tekjuhæstu fá mestu skattalækkanirnar.
Atvinnuleysi félagsmanna okkar er sá þáttur sem oftast hefur brunnið á okkur hin síðari ár. Það hefur verið mikið en hefur aðeins minnkað þó falið atvinnuleysi sé mikið og má ekki vanmeta.
Þær aðgerðir sem aðilar vinnumarkaðarins hafa unnið að í samstarfi við stjórnvöld hafa þó skipt gríðarlegu máli.
En nú á að kippa þessu öllu til baka, engar fjárveitingar verða til verkefnisins, og nú á sumt af þessu fólki, sem hefur verið í tímabundnu starfi að hrökklast í atvinnuleysið aftur vegna þessara aðgerða ríkisstjórnarinnar.
Í mínum huga lýsir þessi stefna því að þeir hafa ekki hugmynd um aðstæður þessa fólks. Hjá mörgum er þetta bein ávísun á að þurfa að leita til sveitarfélagsins um framfærslu. Líkar okkur þetta?
Ég segi nei.
Margt annað er í þessu fjárlagafrumvarpi sem ég gæti rætt um og ljóst að það verður erfitt verkefni að ná kjarasamningum við atvinnurekendur ef stjórnvöld hafa engan áhuga á að tala við launþega þessa lands.
En það verður engin sátt í þjóðfélaginu án samráðs við launafólk hvort sem er á almennum vinnumarkaði eða þeim opinbera.
Kæru félagar, ég óska okkur öllum velfarnaðar í starfinu sem er framundan hér á þinginu og í vetur. Það er mikilvægt að koma saman sem flest og sem oftast því þannig dafnar samstarfið og við getum verið það afl sem svo sannarlega er þörf á til að verja réttindi launafólks og sækja fram í baráttunni fyrir mannsæmandi lífi.
Megi andi samráðs og samvinnu svífa yfir vötnum næstu daga okkur öllum til heilla.
Ég segi fjórða þing Starfsgreinasambandsins sett!