Ákvörðun stjórnvalda um að stytta bótatímabil þeirra sem eru í atvinnuleit úr þremur árum í tvö og hálft ár nú um áramótin hefur strax áhrif á um 500 einstaklinga á landinu. Þar af eru 32 á félagssvæðinu og 11 félagsmenn Einingar-Iðju. Þeir detta af bótum strax um áramót. Svo styttir þessi ákvörðun auðvitað rétt annarra félagsmanna sem eru á bótum.
Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, hefur áhyggjur af áhrifum þessara aðgerða á einstaklinga, sem þurfa á atvinnuleysisbótum að halda. „Það er „léleg“ aðgerð hjá ríkisvaldinu að spara með því að senda þessa einstaklinga á sveitarfélögin. Svo eru þeir sem ekki eiga bótarétt hjá sveitarfélögunum sendir á „guð og gaddinn“. Það er ljóst að það er verið að þrengja lífsafkomu þessa fólks til muna.“