Gjöld fyrir dagvistun og síðdegishressingu hækka mest milli ára hjá Reykjanesbæ, 4,4% og næst mest hjá Seltjarnarnesbæ, 4,1% í nýrri könnun sem verðlagseftirlit ASÍ hefur tekið saman um þjónustu fyrir grunnskólabörn. Sömu gjöld standa í stað í Vestmannaeyjum en hækka á bilinu 2-3% hjá öðrum sveitarfélögum.
Skólamatur hækkar mest á Akranesi, 20,1% eða um 1.596 kr. á mánuði, næst mest á Akureyri um 7% en þriðja mesta hækkunin er í Reykjanesbæ, 6,6%. Mest lækkar skólamatur hjá Fjarðarbyggð um 50% eða 3.150 kr. Verð á skólamat stendur í stað hjá Reykjavíkurborg og Vestmannaeyjabæ milli ára. Verðhækkanir á skólamat í öðrum sveitarfélögum eru á bilinu 1,9-7%.
Seltjarnarnes er með hæstu gjöldin fyrir skóladagvistun og hressingu, 32.704 kr. en Vestmannaeyjar þau lægstu, 15.938 kr. Hæstu gjöld fyrir skólamat eru hjá Ísafjarðarbæ, 11.430 kr. en þau lægstu í Fjarðarbyggð, 3.150 kr.