Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, og Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra undirrituðu í dag samkomulag um þátttöku Akureyrarbæjar í „Vinnu og virkni – átaki til atvinnu 2013“. Með samkomulaginu skuldbindur Akureyrarbær sig til að skapa allt að 19 sex til sjö mánaða störf á tímabilinu 1. desember 2012 til 1. október 2013.
Á heimasíðu Akureyrarbæjar kemur fram að tilgangur samkomulagsins sé að virkja atvinnuleitendur í sveitarfélaginu sem fullnýta rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins á tímabilinu frá 1. september 2012 til 31. desember 2013, til þátttöku að nýju á vinnumarkaði og koma þannig í veg fyrir að langvarandi atvinnuleysi leiði til óvinnufærni. Til að ná því markmiði er gert ráð fyrir að í tengslum við átakið verði til að lágmarki 2.200 sex mánaða starfstengd vinnumarkaðsúrræði á landsvísu. Miðað er við að sveitarfélögin á landinu öllu skapi að lágmarki 660 starfstengd vinnumarkaðsúrræði eða 30% þeirra úrræða sem eiga að verða til á tímabilinu. Á móti er gert ráð fyrir að ríkið skapi 220 starfstengd vinnumarkaðsúrræði eða 10% og almenni vinnumarkaðurinn 1.320 eða 60%.