Í vikunni hefst fundaherferð með trúnaðarmönnum félagsins, en nýlega var ákveðið að boða alla trúnaðarmenn Einingar-Iðju á fund. Vegna Covid þurfti að skipta þeim niður í hópa og því verða fundirnar, sem verða í október og nóvember, alls 18. Fyrstu fundirnir verða á morgun, 8. október, og sá síðasti 3. nóvember. Samkvæmt fundaplani áttu 14 þeirra að vera á Akureyri, tveir í Fjallabyggð, einn á Dalvík og einn á Grenivík. Vegna þess að neyðarstig almannavarna vegna Covid-19 hefur tekið gildi sem og hertar sóttvarnaaðgerðir var ákveðið að fyrstu níu fundirnir verði rafrænir. Er nær dregur hinum fundunum verður ákvörðun tekin um framkvæmd þeirra.
Þegar tekin var ákvörðun um fundina og þeir kynntir sagði Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, að ákveðið hefði verið að fara þessa leið þar sem erfitt er að halda stóra fundi út af ástandinu í þjóðfélaginu. "Undanfarin ár höfum við haldið fjölmarga vinnustaðafundi en vegna Covid hefur það ekki verið hægt. Með þessu náum við að hitta trúnaðarmennina okkar, fá frá þeim upplýsingar um stöðuna á þeirra vinnustað og hvernig við getum betur orðið þeim að liði á þessum tímum. Það er margt í gangi í þjóðfélaginu, eins og kjarasamningamál og aukið atvinnuleysi og því ákváðum við að hugsa aðeins út fyrir kassann og settum upp þetta plan því góð samskipti við trúnaðarmenn skipta öllu máli. Að þessum fundum loknum verður svo tekin saman skýrsla sem lögð verður fyrir stjórn félagsins."
Dagskrá fundanna: