Til hamingju með daginn. Í dag eru liðin 15 ár síðan formlega var gengið frá samruna Verkalýðsfélagsins Einingar og Iðju, félags verksmiðjufólks á Akureyri. Þótt þetta sameinaða félag eigi sér þannig séð ekki langa sögu stendur það á gömlum merg því félögin eiga sér hvort um sig langa og merka sögu í baráttu verkafólks fyrir réttindum sínum. Sögu Iðju má rekja allt aftur til ársins 1936 og er stofndagur félagsins talinn 29. mars það ár. Verkalýðsfélagið Eining varð til 10. febrúar 1963 með sameiningu Verkakvennafélagsins Einingar og Verkamannafélags Akureyrarkaupstaðar. Rætur Einingar ná þó mun lengra aftur og má segja að fyrsta fræinu hafi verið sáð árið 1894 þegar Verkamannafélag Akureyrarkaupstaðar, hið eldra, var stofnað.
Á myndinni, sem tekin var að stofnfundi loknum, má sjá stjórnarmenn í fyrstu stjórn Einingar-Iðju.