Öllum landverkamönnum útgerðarfélagsins Hvamms í Hrísey hefur verið sagt upp störfum frá og með næstu mánaðarmótum. Þetta var tilkynnt á starfsmannafundi í morgun. Eining-Iðja mun halda fund með starfsmönnum í næstu viku og fara yfir stöðuna.
Það vinna 13 félagsmenn Einingar-Iðju hjá Hvammi, sem er langstærsti vinnuveitandi í Hrísey. Starfsfólkið hefur þriggja mánaða uppsagnarfest og að öllu óbreyttu verður síðasti vinnudagur hjá þeim 31. maí nk.
Á heimasíðu Akureyri vikublaðs (www.akv.is) kemur fram að ef þetta er sett í samhengi við íbúafjöldann sem býr í Hrísey þá er um að ræða 7,5% íbúa Hríseyjar. Þetta jafngildir því að 1.350 starfsmenn á Akureyri myndu missa vinnuna á einu bretti, eða um 15.000 íbúar höfuðborgarsvæðisins.