100 ára saga Einingar-Iðju og forvera að öllu leyti unnin í heimabyggð

Björn og G. Ómar handsala samninginn
Björn og G. Ómar handsala samninginn

Laugardaginn 10. febrúar 2018 kemur út bókin Til starfs og stórra sigra en hún hefur að geyma 100 ára sögu verkalýðsfélagsins Einingar-Iðju og forvera þess, en þau félög skipta tugum. Bókin verður um 400 síður að stærð í stóru broti, prýdd fjölda ljósmynda og margar þeirra hafa ekki birst áður opinberlega.

Jón Hjaltason sagnfræðingur hefur unnið að ritun bókarinnar undanfarin fjögur ár. Honum til halds og trausts er þriggja manna ritnefnd, skipuð þeim Braga V. Bergmann, frá Fremri almannatengslum, Sigrúnu Lárusdóttur, skrifstofustjóra Einingar-Iðju, og Þorsteini E. Arnórssyni, starfsmanni félagsins um áratuga skeið. 

Einhugur um að vinna bókina norðan heiða

Samningur um prentun bókarinnar var undirritaður í dag, þriðjudaginn 14. nóvember. Bókin verður að öllu leyti unnin í heimabyggð, þ.e. umbrot, myndvinnsla o.fl. og Ásprent mun annast prentvinnslu, prentun, bókband og pökkun.

„Það var algjör einhugur um það innan stjórnar félagsins að vinna bókina að öllu leyti í heimabyggð, annað kom alls ekki til greina af okkar hálfu,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju. „Ef stéttarfélög ganga ekki á undan með góðu fordæmi hvað þetta varðar, hver ætti þá að gera það?“

„Þetta er mikill heiður fyrir okkur í Ásprenti og við erum öll afskaplega ánægð með þennan samning. Þetta sýnir líka að það er enn hægt að vinna stórar, innbundnar bækur að öllu leyti á Íslandi, þó að stærstur hluti þeirra sé nú unnin erlendis,“ segir G. Ómar Pétursson, framkvæmdastjóri Ásprents. 

Útgáfuhátíð í Hofi 10. febrúar

Útgáfuhátíð verður haldin í menningarhúsinu Hofi á Akureyri laugardaginn 10. febrúar 2018. Sá dagur varð fyrir valinu vegna þess að 10. febrúar 1963 var Verkalýðsfélagið Eining stofnað upp úr nokkrum félögum sem þar sameinuðust í eitt. Þar mun forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, veita fyrsta eintaki bókarinnar viðtöku.