1. maí ávarp Alþjóðasambands verkalýðsfélaga - Einn heimur: atvinna, tekjur, félagsleg réttindi
Í tengslum við faraldurinn sem geisar af völdum COVID-19, og alvarlegar afleiðingar hans um allan heim, kemur samstaða fólks nú skýrar fram en nokkru sinni áður í sögu mannkyns.
Lokun vinnustaða og einangrun í heimahúsum snerta nú flesta íbúa heims og er tilgangur þessara aðgerða að halda aftur af útbreiðslu veirunnar í hverju samfélagi og verja aldraða og þá sem þegar eiga við heilsuvanda að etja. Þetta hefur sett daglegt líf og afkomu fólks í uppnám og haft fjárhagsleg og félagsleg áhrif sem raska tilveru launafólks og valda því að alltof víða lenda þyngstu byrðarnar á láglaunafólki í ótryggum störfum. Viðbrögðin við faraldrinum beinast réttilega fyrst og fremst að því að halda sýkingum í skefjum, milda áhrif sjúkdómsins og standa við bakið á fólki í heilbrigðis- og umönnunarstörfum sem ber hitann og þungann af þessari vinnu, auk margra annarra sem sinna störfum sem eru ómissandi fyrir viðgang þjóðfélagsins. Barist er gegn útbreiðslu veirunnar á hverjum vinnustað hvarvetna í heiminum.
Á baráttudegi launafólks 1. maí sendum við þakkarkveðjur öllu starfsfólki í heilbrigðis- og umönnunarþjónustu og öðrum greinum sem mikið mæðir á. Framlag þessa hóps er ómissandi þegar kemur að því að bjarga mannslífum og sjá okkur fyrir lífsnauðsynlegum vörum og þjónustu.
Tugir þúsunda hafa látist og fjölmargir eiga eftir að glíma við heilsubrest um langt skeið. Áætlað er að 200 milljónir starfa muni hverfa, milljónir manna eiga á hættu að falla aftur niður í fátækt og sá gríðarlegri ójöfnuður sem þegar var í heiminum fer vaxandi á ný. Félagsleg réttindi tveggja af hverjum þremur íbúum heims eru ófullnægjandi eða jafnvel alls engin. Fólk í þeim hópi stendur nú berskjaldað og örbirgð og hungur blasir við mörgum.
Afleiðingar þessa alvarlega ástands hafa með grimmilegum hætti flett ofan af skuggahliðum þeirrar tegundar heimsvæðingar sem neydd hefur verið upp á karla og konur í hinum vinnandi stéttum. Grafið hefur verið undan opinberri heilbrigðisþjónustu með harkalegum aðhaldsaðgerðum, og skerðing á réttindum launafólks hefur rýrt kjör milljóna manna. Konur, farandverkafólk, minnihlutahópar og aðrir sem búa við misrétti bera þyngstu byrðarnar. Þetta verður að breytast.
Lausnina á þessum vanda er að finna í samstöðunni sem er lífsmagn verkalýðsfélaganna, eins og verið hefur frá upphafi og allt fram á þennan dag. Öll ríki heims verða að starfa saman til að sigrast á þessari fyrstu bylgju COVID-19 og búa sig undir það sem framundan er. Ástæða er til að hrósa stjórnvöldum þeirra landa sem nýta sér til fulls samskipti við aðila vinnumarkaðarins í glímunni við aðsteðjandi vanda með það fyrir augum að verja laun og ráðstöfunartekjur íbúanna. Við áfellumst hins vegar stjórnvöld sem sneiða hjá samstarfi við verkalýðsfélög í sínu landi eða við önnur ríki, neita því að um raunverulegan faraldur sé að ræða eða láta ofbeldi og mannréttindabrot viðgangast með miklum fórnum fyrir eigin þegna. Við áfellumst einnig ágirni fyrirtækja sem leitast eftir því að hagnast á þessu ástandi. Við krefjumst þess að allir atvinnurekendur virði réttindi launafólks og leggjum að stjórnvöldum að tryggja það. Við ítrekum vilja okkar til að vinna gegn áhrifum öfgahægrihreyfinga og koma í veg fyrir að þær færi sér þessar erfiðu aðstæður í nyt og grafi enn frekar undan lýðræði og mannréttindum.
Enginn má verða útundan. Kjarninn í allri endurreisn, enduruppbyggingu og endurnýjun verður að vera umfangsmikil fjárfesting hins opinbera í heilbrigðisþjónustu og umönnun til þess að tryggja öllum aðgang að slíkri þjónustu, ásamt því að réttindi alls launafólks séu virt að fullu.
Hafa verður eftirtalin þrjú meginmarkmið að leiðarljósi í allri vinnu við að koma efnahagskerfi heimsins aftur á réttan kjöl:
ATVINNA: Milljónir starfa eru í hættu. Markmiðið verður að vera full atvinna, mannsæmandi störf fyrir alla, góður aðbúnaður og öryggi á vinnustað, að enginn þurfi að sætta sig við ótrygg störf og að böndum verði komið á störf utan formlegs vinnumarkaðar.
TEKJUR: Hlutur launatekna í veltu heimshagkerfisins hefur farið minnkandi um áratuga skeið og hætta er á að hann dragist enn saman í kreppunni sem nú steðjar að. Reglur um lágmarkslaun sem nægja til framfærslu verða að gilda alstaðar, tryggja verður öllu launafólki réttinn til að semja um kaup og kjör og uppræta verður launamun kynjanna.
FÉLAGSLEG RÉTTINDI: Milljarðar manna standa nú uppi án félagslegra réttinda og gríðarleg hætta er á að aðsteðjandi kreppa komi með alvarlegum hætti niður á heilsu og afkomu þeirra. Við þessar aðstæður verða ríki heims að taka höndum saman um að veita nægu fé til að verja félagsleg réttindi allra. Heimurinn má hvorki snúa baki við þeim sem líða mestan skort um þessar mundir né láta sitt eftir liggja við enduruppbyggingu efnahagskerfis sem náð getur til allra þjóðfélagshópa og býr yfir endurnýjunarkrafti.
Þessi markmið hafa grundvallarþýðingu í öllu starfi við að koma hjólum efnahagslífsins aftur af stað og tryggja heilbrigði og velferð allra íbúa lifandi jarðar. Við hvetjum ríkisstjórnir allra landa og allar alþjóðastofnanir til að vinna að þessum markmiðum í sameiningu.
Við búum öll í sama heimi, hvar sem við kunnum að dveljast og hversu mikið sem okkur greinir á. Verkalýðsfélög vita að samstaða skilar árangri. Við verðum að sjá til þess að sá árangur nýtist öllum heiminum.
Gangið í lið með okkur á þessum baráttudegi launafólks og hyllið líf þeirra vinnandi karla og kvenna sem standa fremst í flokki í baráttunni við faraldurinn með því að deila myndum og sögum úr starfi þeirra með #MayDay á Twitter, Facebook og Instagram, eða með því að senda þær á netfangið press@ituc-csi.org, og ef þið hafið tekið upp myndbönd getið þið sent þau inn á 1. maí-síðunni á vefsetrinu Labourstart.