Á fundinum í Hofi þann 17. janúar sl., sem lesa má um í næstu frétt á undan, tók upplýsingafulltrúi félagsins fjóra fundarmenn tali og spurði þá nokkurra spurninga um fundina og vinnu félagsins í aðdraganda samninga. Þetta voru þau Eva Magnúsdóttir; Tómas Jóhannesson, Íris Eva Ómarsdóttir og Haukur Snær Baldursson.
Aðspurð um gildi þessara funda voru þau sammála um að þeir væru mjög mikilvægir og frábært tækifæri fyrir félagsmenn að láta rödd sína heyrast. Eitt svarið var „Þetta er okkar tækifæri til að koma fram með það sem við höfum að segja og ef við mætum ekki þá er erfitt fyrir félagið að vita hvað félagsmennirnir vilja fara fram á. Hvað fundinn í dag varðar þá er alveg heilmikið sem maður fær út úr svona fundi.“ Annar viðmælandi var að koma í fyrsta sinn á svona fund og minntist á að það hefði mikið gildi að mæta. „Þetta er ný reynsla og gaman að koma og kynnast hlutunum.“ „Það er frábært að fá tækifæri til að móta þessar kröfur fyrir kjarasamningana og komast aðeins inn í það sem er í gangi. Ég er nýbyrjuð í þessu og finnst fínt að sjá hvernig þetta gengur fyrir sig og fá að taka þátt,“ sagði þriðju viðmælandinn. Einnig var minnst á það að það hafi verið flott hugsun að fá einhvern utanaðkomandi til að koma og stjórna hópavinnunni, en Eyrún Björk Valsdóttir, deildarstjóri fræðsludeildar ASÍ, skipulagði vinnuna og hafði yfirumsjón með henni.
Auðvelt að koma skoðunum á framfæri
Þau voru öll sammála um að það væri auðvelt fyrir hinn almenna félagsmann að koma skoðunum sínum á framfæri við
félagið en sögðu jafnframt að auðvitað væri spurning hvort menn væru að nýta sér tækifærið til að mæta. Eitt
svarið var „bæði já og nei. Þá meina ég að félagið er mjög opið, það er búið að vera með sex opna
fundi þar sem félagsmenn áttu þess kost að mæta í sinni heimabyggð og koma sínum skoðunum á framfæri. Spurningin er svo hvort
félagsmenn mæti á fundina og nýti tækifærið til að láta sína rödd hljóma nógu vel. Það er
frábært að fólki standi til boða að mæta á fund í sinni heimabyggð, en oft er auðveldara að vera heima í stað þess
að drífa sig af stað og segja hvað það vill.“ Annað svar var „Það er ekki erfitt fyrir þá sem vilja það. Því
miður þá finnst mér fólk almennt vera áhugalaust um kjarasamninga alveg þangað til búið er að semja og þá fer það
að kvarta. Tónninn er þið sjáið um þetta og svo kvarta ég ef ég er ekki sáttur.“ Sá þriðji sagði að
félagið væri mjög duglegt að senda póst með upplýsingum og auglýsingum á trúnaðarmenn. „Við setjum upp
auglýsingar frá ykkur um fundina en auðvitað er spurning hvort við trúnaðarmenn séum nógu dugleg að ýta á vinnufélagana
að mæta og taka þátt.“
Aðspurð um vinnu félagsins í aðdraganda samninga voru þau sammála um að hún væri mjög góð. „Það hefur verið mjög vel staðið að því hvernig vinnan hefur verið sett upp.“ og „allt gert í réttum skrefum,“ voru dæmi um svör sem komu.
Megum ekki sitja eftir
Viðmælendur voru sammála um að staðan væri erfið, að lægstu laun verði að hækka og að fara í hertar aðgerðir ef á
þarf að halda. Sem dæmi um svör þá koma m.a. fram að „það þyrfti að hækka skattleysismörkin og það mætti
alveg hafa uppbæturnar skattfrjálsar. Þetta er erfið staða því við viljum launahækkanir en þær mega ekki setja
þjóðfélagið á hvolf. Við megum samt ekki sitja enn eina ferðina eftir á meðan aðrir fá góðar hækkanir. Kröfurnar
verða að vera raunhæfar en samt góðar.“ „Við munum ekkert gefa eftir og því finnst mér líklegt að við þurfum að
fara í hertar aðgerðir til að ná okkar fram.“ „Þeir sem eru í viðræðunum fyrir okkar hönd verða að vera
ákveðnir og mega ekki gefa eftir. Lægstu laun verða að hækka svo þeir sem á þeim eru geti lifað. Þú ert ekki að fara eignast
íbúð ef þú ert á lægstu töxtum sem nú eru.“