„Tveggjabrókaferð“

Í morgun var byrjað að taka við skráningum í ferðir félagsins næsta sumar og því er við hæfi að birta hér fyrir neðan aðra ferðasöguna sem birtist í jólablaði félagsins í desember. Hér er um að ræða frásögn úr innanlandsferðinni sem farin var dagana 11. til 14. ágúst sl. um Austurland.

Dagana 11. til 14. ágúst 2014 ferðaðist fjölmennur hópur Einingar-Iðjufélaga ásamt mökum um Austurland. Nicole Kristjánsson var fengin til að skrifa ferðasögu og má lesa hana á næstu síðum. Elsa Sigmundsdóttir var Nicki til halds og traust við söguritunina, en þær starfa
báðar hjá félaginu sem VIRK ráðgjafar.

Jæja, fyrsta fjallaferðin með Bjössa. Hvernig verður þetta eiginlega, hugsaði ég og horfði á Elsu. Það var eitt stórt spurningarmerki í augum hennar líkt og hjá mér. Annað slagið spurði ég mig, bíddu nú við, hvernig verður þetta eiginlega? Þið fáið upplýsingarnar seinna, þetta verður ekkert mál, sagði Bjössi. Ég verð nátt úrulega að treysta formanninum, er það ekki? Og já, allavega fengum við að vita hvað við þyrftum að taka með okkur í ferðina. Svo var bara að mæta daginn eftir.

Vonandi spyr mig enginn um neitt, hugsaði ég með smá kvíðahnút í maganum, annars verð ég að viðurkenna að ég veit ekki neitt um þessa ferð. Og svo var ég mætt fyrir utan Alþýðuhúsið. Það sem fyrir augu mér bar „hallelúja“ hér var almennilegt fólk á ferð! Það voru fleiri kælitöskur en fatatöskur í farangurshólfinu. Þetta er nú hópur að mínum smekk. Sá sem hefur þekkt mig í meira en einn dag veit að þessi kerling frá Þýskalandi er matarmanneskja. Mikið var gott að vita það strax í byrjun ferðarinnar að maður myndi alla vega ekki deyja úr hungri upp á fjalli með allt þetta nesti. Sveinn bílstjóri keyrði okkur “save and sound” yfir Námaskarð. Það var gaman að hlusta á Dísu okkar að segja sögur á leiðinni austur og mín bara orðin slök, kósýheit í rútunni eftir að vera búin að skoða Péturskirkju og borða almennilegt nesti í Hrossaborgum þar sem litskrúðugur regnboginn sveigði sig um himnininn. En allt í einu beygði Sveinn bílstjóri út af veginum, á einhverja slóð sem varla sást. Til að gera hvað eiginlega? Hvert í hoppandi! Ég sé ekki neitt nema sand og steina framundan. Vegurinn lá grýttur og hlykkjóttur í gegnum sandauðnina. Af og til þurftu þrír beljakar að fara út og færa til heljar stóra steina af slóðinni svo rútan kæmist leiðar sinnar. Ætli þetta sé vísbending um það sem bíður mín?

Ahhhh, en mikið var gaman að koma í sæluhúsið við Jökulsá á Fjöllum. Þar sem hann Ferju Bensi hélt til og ferjaði ferðalanga yfir Jökulsána. Hugsið ykkur, hvað forfeður ykkar hafa þurft að ganga í gegnum hér í þessari auðn.

Sól og ský dönsuðu saman á himninum og fannst mér mjög gaman að fylgjast með þeim á leiðinni í Möðrudal. Leiðin lá yfir Grjótgarðsháls í átt að Skessugörðum og Sænautaseli. Ég veit nú ekki hvort Bjössi fékk hugmyndina um hvert ætti að fara fyrir eða eftir að við Elsa ákváðum að koma með í ferðina. Það er líka spurning hvor okkar er skessan og hvor sænautið? Okei, okei, Elsa, ég býð mig fram um að vera sænautið.

Um kvöldið var grillað og snætt ljúfengt kjöt við Skipalæk. Gaman var að spjalla um daginn og veginn. Það var smá höfuðverkur hvernig við ætluðum að koma skessu og sænauti fyrir í einu og sama rúmi sem var ekki nema 120cm breitt. Samt var sofið og meira segja sofið vel.

Næsta dag lá leiðin í Mjóafjörð. Myndastopp var á hverju horni. Guð! hvað mér fannst gaman að skoða Klifbrekkufossana á leið okkar niður í Mjóafjörðinn en þetta er stórfengleg fossasyrpa sem fellur niður hæð af hæð niður í Prestagilið, en þangað voru prestarnir tældir af tröllskessu sem bjó í gilinu. Í Brekkuþorpi skoðuðum við myndarleg hús sem var búið að breyta í hlöðu og hesthús. Þau vöktu svo sannarlega athygli mína. Einnig skoðuðum við kirkjuna í þorpinu. Við vorum svo heppin að fá tækifæri til að skoða heimili fyrrverandi þingmanns, Vilhjálms Hjálmarssonar á Brekku á bakaleiðinni, sem er orðin hálfgert safn.

Í hverju stoppi breyttist skessan í fjallageit. Hún stökk til og frá til að taka myndir af hinu og þessu og helst myndir af stöðum sem erfitt var að komast á. Bjössi var nú frekar órólegur með þetta. Oft á tíðum heyrði maður sagt með raunamæddri röddu og það oftar en einu sinni. Hvar er Elsa? Sáu þið hvert Elsa fór? Bjössi virtist ekki alveg sannfærður um að komast heim með allan hópinn og kvað:

Er á hlaupum ólm og heit,
ákaft myndar sérhvern reit.
Svona fimmtug fjallageit
finnst ekki í neinni sveit.

Morgunþokan hafði lyft sér upp og sjást vel í fjöllin hinu megin fjarðarins á leið okkar út á Dalatanga. Þar mátti sjá yfir á Barðsneshorn og hin litskrúðugu Rauðubjörg blöstu við. Á Dalatanga fengum við að skoða bæði gamla og nýja vitann. Sonur Marsibilar bónda og vitavarðar á Dalatanga leiddi okkur um nýja vitann og sýndi okkur hann og sagði frá. Úti reyndu allir að leita að skjóli fyrir norðaustan áttinni sem barði á okkur og minnti okkur á hversu grimm hún getur verið á slíkum stað. Á leiðinni til baka myndaði Elsa fífur, bláklukkur, fossa og fjörur, á meðan hinir í hópnum strunsuðu út úr rútunni í þeim eina tilgangi að finna ber! Krækiber, bláber og allskonar ber sem rötuðu í þau ílát sem fundust í rútunni. Ef sást tóm flaska eða bolli einhvers staðar var spurt hvort ekki væri hægt að klára svo hægt væri að fylla ílátið berjum. Og allir voru sáttir með lífið. Ekki var nú tilhugsunin um rjómann í Kaupfélaginu á Egilsstöðum slæm og hlökkuðu menn til að fá ber og rjóma síðar um kvöldið. Vá, með hvaða eðalhópi er ég eiginlega? Þetta er sko rétta forgangsröðunin og ég kann sko sannarlega að meta hana!

Þriðji dagurinn rann upp með smávægilegri rigningu í byrjun og þoka lá yfir fjöllunum. Þó reyndi sólin sitt ýtrasta við að koma geislum sínum í gegnum þokuna. Jú, við erum á leið í Loðmundarfjörð. Á leiðinni var komið við í Kjarvalshvammi. Þar gat fólk borið saman málverk Kjarvals og landslagið sem honum þótti svo vænt um og málaði. Ég var nú frekar hugsi yfir því að þessi kofi sem Kjarval hafðist við í væri kallaður sumarbústaður „sumarbústaður“ í þeirri mynd sem er í tísku í dag er frekar í líkingu við einbýlishús fyrir 8 manna fjölskyldu.

Áfram var haldið í Njarðvíkur og yfir Njarðvíkurskriður til Bakkagerðis á Borgarfirði eystri. Þar var stoppað litla stund og fengu menn sér ýmislegt til að narta í. Á meðan stökk fjallageitin upp á Álfaborgina í rigningarúðanum til að mynda. Ekki sáust Dyrfjöllin en Tindafellið sást þó vel. Sagan segir að tindar þess séu tröll á göngu sem ekki komust í hellinn sinn fyrir sólarupprás.

Gunnar hafði lofað góðu veðri í ferðinni og spyr Dísu hvort hún sé ekki bara að verða nokkuð ánægð með veðrið þar sem fjöllin sjáist nú bara nokkuð vel og sólin farin að skína af of til. Þá svaraði Dísa. Gunnar minn, þú þarft nú að gera betur en þetta.

Mmhmh, þið sem voruð með okkur í ferðinni og eruð að lesa þetta núna, eru kannski komin með smá glott á andlitið af þeirri tilhugsun um hvernig útlendingurinn í hópnum, sem enn er með bros á vör í sakleysi sínu og nýtur þess að keyra í rólegheitum fram hjá Hvítserki í átt að Húsavíkurskála. Skálavörðurinn kemur hlaupandi og vinkandi á móti okkur og reyndi að sannfæra Svein bílstjóra um að snúa við. Þessi slóð er engan vegin fær rútu, segir hann. Sveinn hélt nú að þetta væri ekki mikið mál kvað hástöfum við stýrið.

Ég skal Miðness hálsinn halda
hrakspár síst mér ótta valda.
Ykkur sýnir fegurð falda
friðarstund á efstu hæð.
Mjög hún verður minnisstæð.

Hann var greinilega að sunnan þessi skálavörður, þekkti hvorki Svein né Bjössa. Eftir matarstopp var svo lagt af stað undir ströngu eftirliti blessaða mannsins í gegnum kíki.

Ennþá fannst mér frekar gaman að þessu öllu og taldi mig ýmsu vana þegar kemur að fjallaakstri. Leiðinn lá upp á við og varð brattari og brattari, beygjurnar urðu þrengri og þrengri og allt í einu var allt stopp. Það þurfti að bakka…já einmitt. Og ég með vinstri rasskinnina langt fyrir utan veginn. Ég gerði nokkuð, sem þau sem þekkja mig vel, upplifa frekar sjaldan „ég steinþagði“, lokaði augunum til að sjá ekki blásvarta reykskýið sem lagði fram með hlið Maddýar, reynslu mikla trukknum okkar. Ég vonast bara til að lifa þetta af, hugsaði ég og kreisti aftur augun. Bjössi lýsir svo framhaldinu betur.

Snarbrött beygja angist eykur
enda mótors kraftur veikur.
Svartur huldi rútu reykur,
rambar til með brak og hopp.
- Þar varð Maddý steinastopp!

Út nú vildu allir fara
yfirþrýsting varð að spara,
enda hvíldi eins og mara
á þeim kantsins svimahæð.
- Afleiðing hans ekki ræð!

Þegar upp var komið gat ég ekki gert neitt annað en að kvarta strax við Bjössa. Það er nú besta streitulosunin fyrir konur, að finna sér karl til að kvarta hressilega í. „Bjössi, þú varst ekki að segja mér að koma með auka brók með mér!“ Einhver aftur í spurði: „Varstu að pissa á þig?“ „Nei, frekar hitt!“ svaraði ég og bar mig aumlega og sagði.

Ég er víðast bleik og blá,
bar mér enginn ferðaskrá.
- Þvílíka ógn og undur!
Talið gat ei táramergð,
- tveggja bróka glæfraferð!
Hristi mig hálfa sundur.

En hvað það var himneskt að koma í Loðmundarfjörð og vel þess virði að missa smá í brók. Kannski er himneskt allstaðar eftir að hafa upplifað þvílíkt kvíðakast og ofsahræðslu samtímis, held samt ekki. Þokan var að láta undan og sólin að sækja á, sjórinn var fagurblár og grasið ennþá grænt með smá haustívafi. Hvað getur verið fallegra hér á landi en þetta. Þó var enn svolítil þokuslæða efst í fjöllunum. Dísa okkar fræddi okkur um að hæsta fjall Loðmundarfjarðar héti Gunnhildur sem er mjög sérstakt þar sem fjöll heita yfirleitt ekki kvenkyns nöfnum. Dísa minnti Gunnar á loforð um gott veður, enn væri skýjahula yfir Gunnhildi og kvað skipun.

Kynja glettur kennd’enni,
kænn frá sprettu gráskildi.
Ylinn réttu að henni,
upp um flettu Gunnhildi.

Á leið okkar inn Loðmundarfjörð komum við að þröngri beygju og brú. Nú voru góð ráð dýr, því hvernig sem Sveinn reyndi náði hann ekki að koma Maddý úr beygjunni og yfir brúna. Tekið var á það ráð að reka alla út úr rútunni og hvarf rútan með Svenna á brott. Skyldi hann vera farinn! Eftir augnablik sást þó í afturenda rútunnar, við stýrið sat einbeittur bílstjórinn. Sveinn stýrði Maddý svo listilega yfir brúna. Bjössi stóð við hinn enda brúarinnar, gaf skipanir um hvar skyldi aka, hversu langt og hvort hjólin væru inn á veginum eða utan hans. Elsa var með myndavélina nánast ofan í hjólfarinu og kvað.

Á veginn kom nú bölvuð beygja
á brúarræfil inn þarf sveigja.
Til þess vonir engir eygja,
ótta það við dauðann jók.
Sál og búka skelfing skók.

Svenni hló nú kampakátur
kærði sig ei neitt um gátur,
Hunsaður var harmagrátur,
hentist glottandi af stað.
- Óðar horfinn, - eða hvað!

Afturábak aftur birtist
ei af baki dottinn virtist.
Ei við háðskot fólksins fyrtist,
flinkur gegnum brúna óð.
- Ögn af hjólum út af stóð.

Oh ja, að sjá hann Svenna bakka yfir brúna án þess að missa eina einustu kælitösku í ána! Nestinu á kirkjustaðinn á Klyppsstað var þó að minnsta kosti borgið.

Á leiðinni til baka upp hálsinn sagði Bjössi nokkra brandara og við gerðum okkar besta við að framkvæma eitthvað sem átti að líkjast söng á leiðinni niður hálsinn. Þökk sé söngnum að engin tók eftir brattanum á niðurleiðinni. Reyndar voru allir í rútunni náhvítir í framan þegar niður kom en í þetta skipti ekki vegna þess hversu brattur og hlykkjóttur vegurinn var heldur vegna verkja í eyrunum eftir að hafa þolað 3ja manna blandaðan kór í boði Einingar-Iðju! Sagt var að sumir hefðu verið svo afslappaðir að þeir sofnuðu en ég held frekar að þeir hafi kosið að missa meðvitund en að hlusta á kórinn.

Það var yndislegt að vakna síðasta dag ferðarinnar, sól og heiðskýrt og fjallabjart. Þetta var tilvalið veður til að keyra yfir Hellisheiði og virða fyrir sér útsýnið þaðan. Það að horfa yfir ósa Héraðsflóans og sjá Dyrfjöllin loksins í allri sinni dýrð var alveg himneskt. Gunnar hafði svo sannarlega staðið við loforð sitt um að rífa þokuna burt og fá sólina til að skína glatt.

Gunnars bæn var glöð og kær
góða bænheyrslu því hlýtur.
Merla Dyrfjöll morguntær,
myndarinnar sérhver nýtur.

Dísa sagði okkur ýmsar sögur á leiðinni. Stoppað var nokkrum sinnum á leiðinni til Vopnafjarðar. Rútunni lagt við Kauptún. Kíkt var í Galleríið en þar tók á móti okkur kona af íslensk-kanadiskum ættum, uppábúin og fín. Einhverjir sáu hana síðar í þáttunum „Vesturfarar” þar sem hún talaði um að hafa klárað hringinn með því að koma aftur til Íslands.

Á leiðinni heim var stoppað á Bakkafirði, Þórshöfn og Ásbyrgi. Í Ásbyrgi fóru menn út og gengu niður að Botnstjörn og sumir gengu upp á útsýnispallinn og horfðu yfir tjörnina. Merkilegt, hérna er alltaf logn og alltaf jafn fallegt að koma.

Nú var komið að hópmyndatöku eins og vant er í slíkum ferðum hjá Einingu-Iðju. Allir kallaðir saman og búið að ræsa út bílstjóra frá Selfossi sem staddur var þarna með hóp. Bílstjórinn var búinn að smella margoft af öllum myndavélunum sem með voru í ferðinni. Kemur þá ekki einn úr hópnum út af kamrinum.

Allir voru sáttir og sælir þegar rennt var inn á Akureyri um kvöldmatarleitið eftir góða ferð.

Mér fannst æðislegt að vera meðlimur í þessum eðalhópi og mjög gaman að ferðast með ykkur í gegnum þykkt og þunnt í þessari „Tveggjabrókaferð.“

Nicki og Elsa. Vísur gerði Sigm. Ben