Laugardaginn 10. febrúar sl. hélt félagið útgáfuhátíð í Menningarhúsinu HOFI í tilefni af útkomu bókarinnar „Til starfs og stórra sigra“ – Saga Einingar-Iðju 1906-2004. Þessi dagur var valinn því þann 10. febrúar, fyrir 55 árum, sameinuðust Verkakvennafélagið Eining og Verkamannafélag Akureyrarkaupstaðar. Sérstakur gestur hátíðarinnar var forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson, sem flutti erindi og tók við fyrsta eintaki bókarinnar.
Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, flutti eftirfarandi ræðu á útgáfuhátíðinni:
Forseti Íslands herra Guðni Th. Jóhannesson,
Einingar-Iðjufélagar og aðrir góðir gestir.
Til hamingju með daginn!
Í dag er mikill hátíðisdagur fyrir launþega hér við Eyjafjörð – ekki bara að við séum að gefa út 100 ára sögu baráttukrafts og sigra verkafólks hér við fjörðinn heldur minnumst við þess einnig að í dag eru 55 ár liðin frá því að verkamenn og verkakonur á Akureyri sameinuðust í eitt félag. Til að sýna samstöðuna sem ríkti með þennan áfanga kölluðu þau félagið Einingu. Björn Jónsson, formaður þessa nýja félags, sagði í lokaorðum sínum þegar hann sleit sameiningarfundinum: „Að stofnun félagsins hefur verið staðið af slíkri eindrægni, að fátítt mun vera. Allir hafa verið á einu máli um framtíðina – að hún fylgi ekki aðeins hinu táknræna og ágæta nafni þess, heldur sanni sig ávallt í verki og því betur sem meira liggur við.“
Þetta eru orð að sönnu og nú til dags mættu margir hugsa með sama hætti og Björn og félagar hans gerðu við stofnun Verkalýðsfélagsins Einingar. Fátítt var á þessum árum að konur og karlar væru í sama félaginu. Þetta var því stórt skref í jafnréttismálum í þá daga.
Ég tel að við Eyjafjörð hafi ávallt verið mikil samstaða meðal verkafólks og það hefur líka sýnt sig að eftir því sem félögin eru stærri, verða þau öflugri og geta betur sinnt þeirri þjónustu og aðstoð sem þeim er ætlað. Sameiningar stéttarfélaga hér við fjörðinn hættu ekki með þessari sameiningu, heldur urðu verkalýðsfélögin í sveitarfélögunum hér út með firðinum deildir innan Einingar frá 1967 til 1975. Einnig gengu launþegabílstjórar inn í félagið árið 1976.
Mjög stór sameining varð árið 1999, þegar Eining-Iðja varð til við sameiningu Verkalýðsfélagsins Einingar og Iðju, félags verksmiðjufólks á Akureyri. Árið 2008 kom svo verkamannadeild Vöku á Siglufirði inn í félagið. Síðan hefur félagssvæðið verið allur Eyjafjörðurinn. Í dag er Eining-Iðja stærsta stéttarfélagið á landsbyggðinni með um 7.000 félagsmenn.
Innan félagsins hefur tekist að halda uppi góðri þjónustu sem hefur skapað traust og einingu um það sem félagið er að gera. Þetta sýna meðal annars kannanir sem Gallup hefur gert fyrir félagið á undanförnum árum. Þar kemur fram að nánast allir sem spurðir hafa verið eru ánægðir með starfsemi og þjónustu félagsins. Við munum áfram vinna ótrauð að því að bæta hag félaganna.
Fyrir 55 árum ríkti samstaða í félaginu okkar og hún ríkir þar enn í dag.
Góðir gestir.
Ég sný mér nú að bókinni glæsilegu sem er tilefni þessarar útgáfuhátíðar. Hún ber heitið „Til starfs og stórra sigra“. Þar er rakin saga Einingar-Iðju og forvera félagsins í ríflega eina öld.
Við lestur þessarar bókar kemur margt á óvart, og þó að hún spanni „einungis“ hundrað ár í sögu verkafólks við Eyjafjörð er með ólíkindum hversu mikið hefur breyst á þeim tíma.
Ég lít með aðdáun og þakklæti til genginna kynslóða og skil í raun ekki hvaðan þeim kom kraftur og þrautseigja til að takast á við þær afleitu aðstæður sem þeim voru búnar.
Hverfum rúm 100 ár aftur í tímann. Kjör verkafólks voru afskaplega léleg, svo ekki sé meira sagt. Margir bjuggu í hálfgerðum hreysum, illa einangruðum og lítið sem ekkert upphituðum. Stórar fjölskyldur bjuggu saman í örlitlu rými, sem enginn myndi láta bjóða sér í dag. Heilu veturna var litla sem enga atvinnu að hafa og ef hún gafst voru smánarlaun í boði.
Margir vinnuveitendur nýttu sér örbirgð og örvæntingu verkafólks og lækkuðu launin enn frekar. Konur voru ekki hálfdrættingar á við karlmenn í launum og fengu gjarnan greitt svonefnt unglingakaup.
Í stuttu máli má segja að nær öll starfskjör- og réttindi, sem við teljum svo sjálfsögð í dag, hafi ekki þekkst þá.
Í bókinni er lýst hvernig smám saman þokaðist í rétta átt. Þar gerði stofnun og starf fyrstu verkalýðsfélaganna gæfumuninn og segja má að þau hafi markað þáttaskil í baráttu verkafólks.
Smám saman fann fólk hve máttur fjöldans var mikill – að með órofa samstöðu var hægt að vinna stóra sigra.
Samstaðan var ekki bara mikilvæg í baráttunni fyrir bættum kjörum, hún var ekki síður mikilvæg til að þrýsta á sveitarstjórnir, og síðar landsstjórnina, að ráðast í aðkallandi verkefni til framfara t.d. á sviði frárennslismála, vatnsveitu, hafnarframkvæmda og vegagerðar, svo dæmi séu nefnd.
Slík verkefni sköpuðu atvinnu á erfiðum tímum og voru öllum til hagsbóta þegar upp var staðið.
Bókin segir frá hörðum, og á köflum hatrömmum, átökum á milli nokkurra stéttarfélaga á fyrstu áratugunum í starfsemi þeirra. Sem betur fer heyra slíkar innbyrðis deilur í verkalýðshreyfingunni nú sögunni til að mestu, og er það vel því að verkalýðshreyfingin þarf á öllu sínu afli að halda til að berjast fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna.
Í bókinni er líka rakið hvernig mörg stéttarfélög lognuðust út af, en önnur styrktust smám saman með sameiningu. Eining-Iðja er sterkt og ört vaxandi félag sem á rætur sínar í alls 22 stéttarfélögum allt frá Siglufirði til Grenivíkur.
Verkafólk nútímans á forverum sínum í öllum þessum horfnu félögum æði margt að þakka. Svo margir og stórir sigrar hafa unnist á þessum 100 árum að nær ógerlegt er að telja þá alla upp.
Ég vil samt nefna örfá atriði: Réttur til greiðslu launa í veikindum, sjúkratryggingar, orlofsréttur, lífeyrisréttindi, stytting vinnuvikunnar um allt að 50 prósent, hærri laun fyrir yfirvinnu, nætur- og helgidagavinnu – og síðast en ekki síst sömu laun fyrir karla og konur.
Þótt fullkomið launajafnrétti kynjanna hafi enn ekki náðst miðar í rétta átt. Við þessa upptalningu má svo bæta byggingu orlofshúsa og -íbúða, fjölbreytilegum styrkjum til félagsmanna og mörgu sem er í boði á félagslega sviðinu.
Nær ekkert af framagreindu náðist baráttulaust og stundum þurfti átakamikil verkföll til, verkbönn voru jafnvel lögð á og hvaðeina. En samstaðan var órofa og í krafti hennar var mörgum góðum málum þokað áleiðis og stundum alla leið í höfn.
Þótt margt hafi áunnist í baráttu verkafólks fyrir bættum kjörum er ennþá margt óunnið. Jafna þarf lífskjörin í landinu og minnka mun hæstu og lægstu launa. Við megum því alls ekki sofna á verðinum og höldum baráttunni ótrauð áfram.
Ég vil biðja fólk að standa upp og við skulum klappa fyrir öllu því baráttufúsa fólki sem hefur skapað okkur það sem við höfum í dag með ótrúlegri þrautseigju og krafti – með viljann að vopni.
Á aðalfundi Einingar-Iðju þann 16. apríl 2013 var samþykkt tillaga stjórnarinnar um að láta rita sögu félagsins og fyrirrennara þess. Þetta mikla rit „Til starfs og stórra sigra“ hefur því verið í rúm fjögur ár í smíðum.
Í framhaldinu var samið við Jón Hjaltason sagnfræðing um ritun bókarinnar. Þá strax var ákveðið að verklok Jóns yrðu í lok október 2017 og að bókin kæmi út 10. febrúar 2018.
Til að gera langa sögu stutta gengu þessi áform stjórnar Einingar-Iðju fullkomlega upp. Bókin var tilbúin á tilsettum tíma og það sem meira er; hún er að öllu leyti unnin norðan heiða - skrifuð, brotin um og prentuð á Norðurlandi.
Ég vil nota tækifærið og þakka Jóni Hjaltasyni ánægjulegt og gott samstarf síðastliðin 4 ár. Ég vil líka þakka ritnefndinni sem hélt utan um einstaka verkþætti allan ritunartímann með miklum sóma, þeim Braga V. Bergmann, Sigrúnu Lárusdóttur og Þorsteini E. Arnórssyni.
Ég vil einnig þakka þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu til myndir í bókina, en margar þeirra eru einstæðar og hafa ekki birst áður opinberlega. Guðjóni Heimi Sigurðssyni þakka ég vandað umbrot og myndvinnslu og starfsfólki Ásprents fyrir afbragðs prentun og bókband.
Þessi bók sýnir svo ekki verður um villst að vel er hægt að prenta vandaðar bækur á Íslandi og óþarfi er að leita út fyrir landsteinana í þeim efnum. Stjórnin tók aldrei annað í mál en að vinna bókina að öllu leyti „heima í héraði“. Ég er glaður með þá ákvörðun okkar og stoltur legg ég bókina fram á þessum hátíðisdegi.
Til hamingju með daginn.
Mig langar að biðja forseta Íslands, herra Guðna Th. Jóhannesson, sem heiðrar okkur með nærveru sinni hér í dag, að koma til mín og taka við fyrsta eintakinu af bókinni.