„Ég kaus í gærkvöldi og þessi rafræna kosning er einföld og auðskiljanleg, þannig að ég var fljót að afgreiða þetta,“ segir Birna Harðardóttir sem starfar hjá matvælafyrirtækinu Norðlenska á Akureyri. Hún er trúnaðarmaður starfsmanna, er í samninganefnd Einingar-Iðju og einnig í stjórn Matvæla- og þjónustudeilar félagsins.
„Ég hvet alla til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni, því samninganefndin þarf að hafa sterkt bakland. Vandaður og lýðræðislegur undirbúningur kjaraviðræðnanna skiptir höfuðmáli, enda snúast viðræðurnar um sjálfa lífsafkomuna. Það er því mikið í húfi. Kröfugerðin var mótuð á fjölmörgum opnum fundum og þess vegna er svo mikilvægt að fólk kjósi og taki þannig afstöðu til hugsanlegra verkfallsaðgerða.“
Birna segir að kjaramál séu ekki mikið rædd á sínum vinnustað. Hún segist styðja hugsanlegar verkfallsaðgerðir, þótt hún voni að ekki þurfi að grípa til verkfallsvopnsins.
„Auðvitað vill enginn fara í verkfall, en svona er nú bara staðan. Með hækkandi sól opnast vonandi augu forsvarsmanna Samtaka atvinnulífsns fyrir nauðsyn þess að rétta hlut verkafólks. Ég held að almenningur standi með verkafólki í þessari baráttu, enda er grundvallaratriði eð fólk geti lifað af dagvinnunaunum. Ég hvet félagsfólk til að kjósa og það fyrr en síðar. Kosningin er síður en svo flókin,“ segir Birna Harðardóttir.