„Það bendir allt til þess að þátttaka í atkvæðagreiðslunni verði góð hjá Einingu-Iðju, mér heyrist á fólki að margir hafi kosið fljótlega eftir að kynningarbréfin bárust í pósti og starfsfólk skrifstofunnar hefur sömu sögu að segja. Rafræna atkvæðagreiðslan er einföld og fljótleg, þannig að ég hvet fólk sem hefur atkvæðisrétt til að taka afstöðu,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, um atkvæðagreiðslu vegna verkfallsboðunar hjá félagsmönnum sem starfa eftir samningum við Samtök atvinnulífsins. Atkvæðagreiðslan hófst á mánudaginn og lýkur á miðnætti mánudagsins 20. apríl.
Björn er jafnframt formaður Starfsgreinasambands Íslands og aðspurður um viðræður við SA sagði hann að því væri fljótsvarað. „Það er ekkert að gerast í viðræðum við vinnuveitendur þessa dagana, sem telja að þjóðarskútan fari á hvolf, verði gengið að okkar sjálfsögðu og eðlilegu kröfum. Allar fréttir um miklar hækkanir launa í atvinnulífinu gera ekkert annað en að herða almennt launafólk í baráttunni, sem tekur ekki í mál að sitja eftir. Boðaðar verkfallsaðgerðir eru harðari og víðtækari en áður höfðu verið tilkynntar og koma til með að hafa mikil áhrif á fjölda vinnustaða um land allt. Krafa okkar er meðal annars sett fram í ljósi mikils hagnaðar fyrirtækja og hækkana til hinna hæst launuðu í þjóðfélaginu.“
Spurður hvort kosningaþátttakan verði ágætis mælikvarði á afstöðu launafólks til kjarabaráttunnar var svarið já, tvímælalaust. „Það er nauðsynlegt fyrir samninganefndina að hafa sterkt bakland. Góð þátttaka í kosningunum sýnir vinnuveitendum að samstaðan er mikil. Auðvitað vona ég að okkur takist að afstýra verkföllum. Í mínum huga er ábyrgðin alfarið vinnuveitenda, þjóðin stendur með launafólki, það kemur berlega fram allri í opinberri umræðu. Vonandi opnast augu vinnuveitenda með hækkandi sól,“ segir Björn Snæbjörnsson.