Á Mínum síðum Einingar-Iðju sem teknar voru í notkun 1. nóvember 2024 er að finna persónublað sem inniheldur margvíslegar upplýsingar um réttindi félagsfólks. Hægt er að sækja um orlofshús, sjúkrastyrki og sjúkradagpeninga. Jafnframt er hægt að fylgjast með réttindaávinnslu og skilum atvinnurekenda á iðgjöldum. Félagsfólk sem vinnur eftir sveitarfélagasamningi getur fylgst með inneign í Félagsmannasjóði, sem er til útgreiðslu 1. febrúar ár hvert.
Hér fyrir neðan má sjá leiðbeiningar fyrir helstu aðgerðir inni á Mínum síðum Einingar-Iðju.
Innskráning – félagsmaður skráir sig inn á Mínar síður af heimasíðu félagsins, www.ein.is. Hægt er að nota rafræn skilríki eða auðkennisapp frá Auðkenni.
Persónublaðið veitir góða yfirsýn yfir stöðu hvers félagsmanns. Á því má finna yfirlit yfir félagsgjöld (sem endurspegla heildarlaun), skipt eftir mánuðum og atvinnurekendum. Jafnframt má sjá réttindi í sjóðum og hvernig þau hafa verið nýtt. Í flestum tilvikum er hægt að sækja ítarlegri upplýsingar um hvert atriði. Á því má einnig skoða orlofskosti, panta og ganga frá greiðslu og sækja um styrki sem eru í boði, bæði í sjúkrasjóði og í fræðslusjóði.
Til að komast inn á bókunarsíðuna, er smellt á takkann Orlofskerfi sem finna má efst til vinstri á Mínum síðum eða bláa takkann við Full réttindi í orlofsrammanum á persónublaðinu. Ef ýtt er á spurningamerkið má sjá fjölda daga sem félagsmaður á eftir af leigudögum í íbúðir eða sumarhús. T.d. þýðir 7:7 að sjö af sjö dögum eru eftir af leigudögum næstu sex mánuði.
Á bókunarsíðunni sjást landsvæðin með orlofseignum félagsins. Þegar smellt er á eitthvert svæðið opnast listi yfir eignirnar þar (Einarsstaðir í þessu dæmi hér fyrir neðan) og um leið sést bókunarstaða hverrar eignar á viðkomandi tímabili.
Bókunarsvæði
Hægt er að framkvæma ýmsar aðgerðir og fá upplýsingar þegar farið er á bókunarsvæðið á persónublaðinu, svo sem yfirlit yfir fyrri leigur og fleira.
Þegar smellt er á Sækja um styrk í sjúkrasjóðsrammanum á persónublaðinu, birtist þessi síða.
Umsóknarform fyrir sjúkradagpeninga lítur að flestu leyti út eins og formið fyrir styrkina. Mestu munar, að skila þarf inn ýmsum viðbótarvottorðum, svo sem læknisvottorði og vottorði atvinnurekanda, auk upplýsinga um persónuafslátt.
Umsóknarformið fyrir styrki úr fræðslusjóði er í langflestum atriðum sambærilegt við umsóknir úr sjúkrasjóði. Félagsmenn geta átt rétt á styrkjum úr þremur menntasjóðum, eftir því hvaða kjarasamningi þeir starfa samkvæmt. Kerfið velur réttan sjóð.
Umsækjandi þarf fyrst að velja tegund styrks úr felliglugga. Næst þarf hann að hlaða upp kvittun og skrá upplýsingar um útgefanda kvittunar. Loks þarf umsækjandi að tryggja að nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir um netfang, símanúmer og bankareikning, til að hægt sé að afgreiða styrkinn.
Á persónublaðinu má finna hnapp til að senda inn fyrirspurn eða stofna mál, sjá mynd.
Hægt er að senda inn almenna fyrirspurn til félagsins með því að setja inn titil, slá inn texta og senda. Ef þú hefur verið með eða ert með orlofshúsabókun eða hefur sótt um styrk/i þá getur þú valið viðkomandi áður en fyrirspurnin er send inn.
Ef þú þarft að stofna mál hjá stéttarfélaginu vegna vinnuslyss, gjaldþrots, veikinda, brota á stéttarfélagssamningi af hálfu vinnuveitanda eða annarra alvarlegra atvika, þá þarftu að ýta á vinsamlegast smelltu hér takkann sem sjá má á myndinni hér fyrir ofan. Þá birtist síðan sem sjá má hér fyrir neðan þar sem hægt er að velja tegund máls, setja inn athugasemd og senda með viðhengi ef þarf.
Það getur skipt miklu máli fyrir verkalýðsfélög að vita á hvaða starfsstöðvum félagsmenn vinna. Bæði eru fyrirtæki og sveitarfélög, orðin stærri en áður var og mörg fyrirtæki hafa margar starfsstöðvar.
Á mínum síðum félagsins er auðvelt að skrá starfsstöð og einnig að tilkynna um breytingu á starfsmannaflokk og jafnvel skrá starfsheiti.
Stefnt er á að vefverslun félagsins verði komin í loftið í mars 2025. Þar verður m.a. áfram hægt að versla Útilegukortið og Veiðikortið og jafnvel eitthvað fleira sem mun verða ljóst er hún fer í loftið. Samningaviðræður við ýmsa aðila eru í gangi þessa dagana.
Á Mínum síðum mun verða hægt að fara inn í Vefverslun þar sem mun birtast listi yfir valmöguleika sem félagsmanni býðst að kaupa á hagstæðu verði.