Til hamingju með daginn - lokum kl. 12

Í dag, 19. júní, er því fagnað að 100 ár eru liðin síðan íslenskar konur fengu kosningarétt. Baráttan hafði þá staðið yfir frá árinu 1885. Það voru konur 40 ára og eldri sem fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Þetta sérkennilega aldursákvæði var einsdæmi í heiminum en um 1915 gátu íslenskar konur vænst þess að ná 55 ára aldri. Kosningarétturinn var því í byrjun réttur „eldri“ kvenna. En sigurinn var stór og á hátíðarsamkomu sem haldin var á Austuvelli 7. júlí 1915 til að fagna tímamótunum var margt um manninn. Í Kvennablaðinu 16. júlí 1915 sagði m.a.:

„Samkoman var ein sú fjölmennasta sem sést hafði hér á landi, ef ekki sú fjölmennasta – og aldrei höfðu áður sést svo margar og jafn prúðbúnar konur. Smámeyjarnar héldu allar á íslenska fánanum, Austurvöllur var fánum skrýddur …“

Í tilefni aldarafmælis kosningaréttar kvenna verða skrifstofur félagsins lokað frá kl. 12.00 í dag til að sýna afmæli 100 ára kosningaréttar kvenna virðingu og til að starfsmenn geti tekið þátt í hátíðahöldum síðdegis. Eining-Iðja hvetur alla til þátttöku í hátíðarhöldum dagsins.