Fínn fundur á Grenivík – fundur á Akureyri kl. 20:00

Fyrsti fundur af sex sem haldnir verða í vikunni þar sem leitað er eftir hugmyndum af launakröfum félagins fór fram á Grenivík í dag. Fín mæting var á fundinn. Næsti fundur er á Akureyri kl. 20 í kvöld. Í byrjun fundar á Grenivík fór fram kosning svæðisfulltrúa og varamanns hans. Engin mótframboð bárust gegn sitjandi fulltrúum og því verður Róbert Þorsteinsson áfram svæðisfulltrúi og Þórey Aðalsteinsdóttir varamaður hans. Svæðisfulltrúar sitja í aðalstjórn félagsins og varamenn eru í trúnaðarráði.

Að kosningu lokinni fór Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, yfir nýlega viðhorfs- og kjarakönnun sem Capacent framkvæmdi fyrir félagið. Björn fór einnig yfir gögn frá Hagstofunni sem sýndi hvernig mismunandi hópar í þjóðfélaginu hafa hækkað í launum frá árinu 2006. Fínar umræður urðu um þessa liði og tengdust þær inn í vinnu fundargesta um hugmyndir að launakröfu sem á að vera inni í kröfugerð. Fundarmenn svöruðu sex spurningum, m.a. um launakröfu, lengd samnings o.fl. Þetta verður gert á öllum fundunum sex í vikunni og einnig á fundi sem fram fer í Hofi á Akureyri næsta laugardag. Þar er búið að boða alla þá sem eru í trúnaðarráði, samninganefnd og alla þá trúnaðarmenn sem ekki eru í þessum nefndum. Næsta mánudag mun samninganefnd félagsins koma saman, fara yfir niðurstöður þessara funda og ganga endanlega frá kröfugerð félagsins sem send verður til samninganefndar Starfsgreinasambandsins.

Fundurinn í kvöld

Við hvetjum félagsmenn til að mæta á fundinn sem verður á Akureyri í kvöld, hann hefst kl. 20:00 og verður í salnum á 4. hæð Alþýðuhússins. Félagar, mætið og takið þátt í að móta launakröfur ykkar.